Síðustu dagar hafa verið góð áminning fyrir mig að fresta ekki öllu fram á síðustu stundu. Nú veit ég ekki hvort að unglingurinn þinn hafi verið í prófum í desember, taki próf í janúar eða taki kannski engin próf en það má líkja undirbúningi fyrir próf við undirbúning fyrir jólin.
Flestir byrja að læra allt of seint fyrir próf og jafnvel frumlesa efni daginn fyrir próf. Það gengur upp í mörgum tilfellum sem eykur líkurnar á því að sami leikur verði endurtekinn fyrir næstu próf – sem sagt að læra bara rétt fyrir prófin.
En þegar nemendur taka sénsinn að frumlesa efni rétt fyrir próf, þá eru þeir að ganga út frá því að þeir veikist ekki og séu full frískir þegar kemur að því að læra fyrir prófin. En smá veikindi geta sett strik í reikninginn og því gott að vera skynsamur og læra jafnt og þétt yfir alla önnina.
Varðandi undirbúning jóla, þá hef ég alltaf verið mikið jólabarn. Oftast byrja ég að spila jólatónlist í byrjun nóvember og vil hafa allt skreytt fyrir fyrsta í aðventu. Ég hef nú samt aldrei verið neitt sérstaklega tímanleg með að kaupa allar jólagjafirnar, en þetta árið var ég óvenju tímanleg – sem ég er mjög þakklát fyrir núna.
Maðurinn minn greindist nefnilega með covid 17. desember. Um leið dreif ég mig og pakkaði inn öllum gjöfunum og flokkaði í poka eftir því hvert þær ættu að fara. Svo rúmum tveimur dögum seinna náði covidið mér.
Ég man varla eftir mér í 3 daga – en mikið svakalega var gott að hugsa til þess að ég hafði náð að kaupa allar gjafirnar og pakka þeim inn áður en ég veiktist! Ég ætla að læra af þessu og héðan í frá vera tímanlega með jólagjafirnar.
Við erum vön að hafa tengdó, foreldra mína, systir og maka í mat á aðfangadag. Því miður verður ekkert boð hjá okkur í ár vegna veikinda, en þar sem við erum bæði á góðum batavegi þá er ég bara þakklát fyrir það.
Ég vona að þú og fjölskylda þín séu við góða heilsu, en annars er ekkert annað í stöðunni en að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og finna leiðir til að gera það besta í stöðunni. Sjálf hlakka ég mikið til að lesa góðar bækur og hafa það rólegt og notalegt um þessi óvenjulegu jól.
Ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og vona að þið hafið það sem allra best yfir hátíðirnar.
Jólakveðjur,
Gyða stærðfræðikennari