Gleðilegt nýtt ár!
Núna er tími áramótaheita en þau eiga ekkert sérstaklega vel við nemendur í grunnskóla, þar sem þessi tími þýðir einungis að skólaárið sé hálfnað. Það er því mun hentugri tími að setja sér góð markmið í upphafi skólaárs (í lok ágúst).
En það breytir samt því ekki að það er alltaf góður tími til að gera góðar breytingar í lífi sínu og taka sig á. Þannig að þó svo að það hefði kannski verið best að ná virkilega góðum tökum á náminu strax í haust, þá er næst besti tíminn til að gera það akkúrat núna!
Eins og með flestar breytingar borgar sig bara að byrja lítið og auka svo við jafnt og þétt. T.d. finnst mér fínt og raunhæft markmið að nemendur taki frá 20 mínútur daglega til að læra. Þegar því markmiði er náð í heila viku, þá er hægt að auka tímann í 30 mínútur á dag.
Það er nefnilega margt sameiginlegt með hreyfingu og lærdómi. Ég sé rosalega marga nemendur ætla að taka námið virkilega föstum tökum strax í upphafi annar, en þeir læra svo svakalega mikið fyrstu vikuna að þeir fá nóg og gera svo nánast ekkert meir heima sem eftir er annarinnar.
Ef þú átt ungling í 10. bekk, sem langar að ná ákveðinni lokaeinkunn í vor, þá er tíminn núna til að gera ráðstafanir. Skv. aðalnámskrá grunnskólanna eiga nemendur að fá tækifæri á að bæta sig, svo kannski þarf unglingurinn þinn að fara í eldra efni, rifja það upp og fá tækifæri til að hækka þá einkunn.
Fyrir einhverja er góður kostur að athuga með fjarnám í framhaldsskóla í kjarnafögunum (íslensku, ensku og stærðfræði). Því skv. aðalnámskrá grunnskólanna eiga nemendur sem komnir eru í framhaldsskólaefni að fá A í viðkomandi fagi.
Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi nám fyrir þitt barn eða ungling – hikaðu ekki við að hafa strax samband með því að senda mér Facebook skilaboð (https://www.facebook.com/staerdfraedi.is).