fbpx

Gervigreind og stærðfræði

Hefur þú prófað Chat GPT eða sambærilega gervigreind? Þetta er frábært tæki sem getur sparað okkur heilmikinn tíma, en eins og dæmin hafa sannað getum við ekki treyst því að þær upplýsingar sem við fáum séu allar réttar.

Ég spurði Chat GPT um daginn hvort hún gæti kennt mér reglu Pýþagórasar. Já, hún var til í það og kom með ágætis útskýringu á því hvernig sú regla virkar ásamt skýringarmynd. En málið var að skýringarmynd var ekki rétt, þar sem langhliðin hafði bókstaf skammhliðar. Ég sagði henni að myndin væri ekki rétt, hún baðst afsökunar – en kom síðan aftur með sömu mynd.

Gervigreind og stærðfræði
Getum við nýtt okkur gervigreind til að verða betri í stærðfræði?

Gervigreindin er oftast notuð til að leysa verkefni og dæmi eru um að nemendur hafi beðið hana að skrifa fyrir sig ritgerðir, en þessi greind virkar því miður ekki eins vel í stærðfræði. Ég líki þessari gervigreind við t.d. smáforritið PhotoMath, þar sem nemendur geta tekið mynd af dæminu og fá þá útreikninga og svar.

Gallinn við PhotoMath er sá að nemendur læra lítið á að nota það. Draumurinn væri að nemendur myndu hella sér í rannsóknarvinnu sem yrði til þess að þeir þyrftu ekki að nota PhotoMath nema annað slagið. En staðreyndin er sú að nemendur sem ég hef verið að kenna og nýta sér PhotoMath virðast ekki læra neitt og þurfa aðstoð frá þessu smáforriti í hverju einasta dæmi.

Ég líki gervigreind eins og Chat GPT svolítið við PhotoMath. Það er bara verið að koma með svarið – en eins og ég hef tönglast á margoft í mínum skrifum, þá er stærðfræði rannsóknarvinna og við þurfum að tileinka okkur stærðfræði viðhorf.

Þess vegna varð ég alveg hoppandi kát þegar ég heyrði af því að verið væri að þróa sérstaka gervigreind fyrir stærðfræði. Þessi gervigreind á að virka eins og kennari (með fókus á stærðfræði viðhorf). Þegar nemandi spyr gervigreindina “hvernig reikna ég þetta dæmi”, þá kemur gervigreindin með frábærar spurningar á móti sem fá nemandann til að hugsa og læra. T.d. gæti fyrsta svar gervigreindarinnar verið: Hvað ertu búinn að prófa? Gætir þú leyst einfaldari útgáfu af þessu dæmi? Hvað veistu og hvar ertu nákvæmlega stopp?

Ég er sannfærð um að þessi stærðfræði gervigreind á eftir að umbylta stærðfræðikennslu í heiminum og um leið fækka þeim kennurum sem halda að besta leiðin til að kenna nemendum sé að segja þeim nákvæmlega hvað eigi að gera – án þess að leyfa þeim sjálfum að hugsa og rannsaka.

Það er nefnilega fullt af kennurum og leiðbeinendum sem eru þannig að ef nemandi réttir upp hönd og spyr “hvernig reikna ég þetta dæmi?”, þá sýna þeir nemendum strax hvernig reikna á dæmið. Fyrir mér er það bara eins og PhotoMath. Réttara er að spyrja, hvar ertu nákvæmlega stopp? Byrjaðu að reikna og sjáum hvar þú stoppar. Hvernig gekk með dæmið á undan? o.s.frv.

Þessi stærðfræði gervigreind er á frumstigi og enn í prófunum. En ég vona að þessi stærðfræði gervigreind verði einnig þróuð fyrir íslensku, eins og Chat GPT, til að nemendur geti sótt sér aðstoð sem virkilega nýtist þeim við námið og er algjörlega einstaklingsmiðuð.

Hefur þinn unglingur verið að prófa sig áfram með gervigreind eins og Chat GPT? Ef svo er, hvað finnst honum áhugaverðast að spyrja um og fá aðstoð með? Það væri frábært að heyra frá þér, svo ef þú hefur smá tíma þá máttu endilega svara þessum pósti og deila því með mér.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
Hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: