Undirbýr framhaldskólinn nemendur nægjanlega vel fyrir háskólanám eftir styttingu framhaldsskólans?
Fyrir stuttu síðan skrifaði ég pistil um framtíð stærðfræðinnar, en var þá fyrst og fremst að tala út frá grunnskólanum. En í stuttu máli kom þar fram að ég hef verulegar áhyggjur af menntun barna í grunnskóla, sérstaklega sem snýr að stærðfræði. Það hefur svo mikið breyst á örfáum árum, sem gerir foreldrum og nemendum nánast ómögulegt að átta sig á því hvernig barnið eða unglingurinn stendur námslega séð – nema þegar þessi eina lokaeinkunn í hverju fagi er gefin í 10. bekk.
En ég er líka ósátt með styttingu framhaldskólans, sem ég hef ekki skrifað um áður, en ætla að gera það hér því að ég er viss um að margir foreldrar grunnskólanema hafa ekki hugmynd um þær breytingar sem hafa átt sér stað og afleiðingar þeirra.
Ég er sem sagt ósátt með styttinguna að því leiti að mér finnst hún ekki undirbúa nemendur nægjanlega vel fyrir háskólanám eins og gert var þegar framhaldsskólinn var 4 ára nám.
Forsaga málsins er sú að alveg frá árinu 1994 hafa verið hugmyndir um að stytta framhaldsskólann í 3 ár, en það var síðan ekki fyrr en árið 2015 að framhaldsskólinn var styttur úr 4 árum í 3 ár. Hugmyndin að útfærslu styttingarinnar var að taka af fyrsta árið í framhaldskóla og láta grunnskólann sjá alfarið um þá kennslu. Það var mjög spes sérstaklega fyrir þær sakir að ENGAR breytingar voru gerðar eða hafa verið gerðar í grunnskólanum frá því að framhaldsskólinn var styttur. En þess má þó geta að þegar ný aðalnámskrá grunnskólanna kom út árið 2006, þá voru hæfniviðmið í íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku miðuð við að efni fyrsta árs í framhaldsskóla væri komið þar inn.
Það voru að sjálfsögðu byrjunarerfiðleikar með styttinguna, t.d. voru sumir skólar sem “krumpuðu” 4 ára námsefni niður í 3 ár, þannig að álagið á nemendur var svo mikið að stærstur hluti nemanda hætti í íþróttum.
En núna eru liðin um 7 ár frá því að fyrstu skólar tóku inn nemendur á 3 ára plani og því hægt að segja að flestir framhaldsskólar séu búnir að fínpússa og laga til efnið eins og þeir eru sáttir með.
Það er einkum tvennt sem ég er verulega ósátt með…
Ekki nógu margar einingar í dönsku
Nemendur sem útskrifast úr framhaldsskóla eru ekki með nógu margar einingar í dönsku til að geta sótt um nám í mörgum háskólum í Danmörku. Það er reyndar einnig komið til vegna þess að sumir skólar hafa hækkað viðmiðið, en framhaldsskólanir hafa ekki fylgt því eftir. En ég man að einn helsti rökstuðningur þess að kenna dönsku í framhaldsskólum væri til að auðvelda Íslendingum með stúdentspróf að sækja um nám á Norðurlöndunum.
Sumir skólar (t.d. Kvennó) eru að reyna að bæta upp þennan skort á einingum með því að bjóða nemendum að taka dönsku í val, en nemendur sem bæta þeim áfanga við sig ná samt ekki upp í einingafjöldann sem þarf til að sækja um háskólanám í Danmörku og þurfa því að taka auka einingar í dönsku í fjarnámi í öðrum skólum.
Ekki nógu margar einingar í stærðfræði, líffræði og eðlisfræði
Nemendur sem útskrifast af Náttúrufræðibraut eru ekki með nógu margar einingar í stærðfræði í kjarna til að geta sótt um nám í verk- og tölvunarfræði (en gætu bætt við sig áföngum í vali, fyrir þá sem vita af þessu tímanlega og þurfa þess).
Sú breyting sem ég myndi vilja sjá í framhaldsskólunum er að allar þær kröfur sem skólarnir uppfylltu fyrir styttingu framhaldskólans verði þær sömu. Mér finnst eðlilegt að bjóða upp á færri valfög til að tryggja að grunnurinn sem nemendur útskrifast með sé nógu sterkur til þess að nemendur geti sótt um og stundað háskólanám eins og áður.
Núna er ég enginn sérfræðingur í þessum málum, en ég var að kenna stærðfræði á framhalsskólastig í átta ár og var einmitt í kennslu bæði fyrir og eftir þessar miklu breytingar. Ef þú veist meira en ég eða veist um einhverja skóla sem eru að útfæra styttinguna mjög vel – þá máttu endilega láta mig vita.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is