Einkunnir við lok 10. bekkjar voru fréttaefni í kvöldfréttum hjá RÚV tvö kvöld í vikunni sem er að líða – ásamt því að vera mikið til umræðu á öðrum fréttamiðlum. Þar var meðal annars verið að ræða um viðbrögð foreldra við einkunnagjöf skóla og áhyggjum þeirra af því hvaða afleiðingar einkunnir hafa varðandi inntöku í framhaldsskóla.
Þegar kemur að einkunnum í 10. bekk, þá flokka ég foreldra í fjóra flokka. Auðvitað er ekki hægt að flokka alla foreldra í þessa mismunandi flokka, en mig langar að gera það hérna, til að þú sem foreldri, vitir hvar þú stendur og hvernig þú getur brugðist við:
- Foreldrar sem eiga ungling sem hefur áhyggjur af því að komast ekki í draumaskólann
- Foreldrar sem eiga ungling sem hefur áhyggjur af því að geta ekki sótt um í skóla með bekkjarkerfi
- Foreldrar sem eiga ungling sem er ekki mikið að spá í einkunnir því hann er viss um að ná B
- Foreldrar sem eiga ungling sem veit að hann mun ekki ná B og það er bara allt í lagi
Ástæðan fyrir því að ég vil búa til þessa flokka, er til þess að þú sem foreldri getir áttað þig tímanlega á stöðunni, því oft liggja einkunnir ekki fyrir, fyrr en unglingurinn fær umslagið afhent við lok 10. bekkjar.
A. Foreldrar sem eiga ungling sem hefur áhyggjur af því að komast ekki í draumaskólann
Það er staðreynd að til þess að unglingurinn sé öruggur með að komast í draumaskólann, þá þarf hann að fá A í öllum kjarnafögunum (stærðfræði, íslensku og ensku) og góðar einkunnir í öllum hinum fögunum.
Síðstu ár hefur Versló verið vinsælasti bóknámsskólinn og þar hafa nemendur þurft að ná A til að vera öryggir með að komast inn. Ég var búin að heyra einhverjar sögur af því að strákar ættu auðveldara með að komast inn í Versló þar sem þeir væru með einhvern kvóta til að jafna út kynjahlutföllin. En svo hef ég heyrt nokkur dæmi af strákum sem voru með B+ í kjarna fögunum og almennt með góðar einkunnir og komust samt ekki inn. Svo til að vera öruggur með að komast inn, þá verður stefnan að vera á einkunnina A.
Hvað er til ráða?
Eins og vitað er, þá er mjög mikill munur á milli skóla. Í sumum skólum er hægt að fá A ef nemendum gengur vel í öllum prófum og skilaverkefnum, en í öðrum skólum er ekki gefið A. Ég veit um nokkur dæmi af skólum sem gefa ekki A, nema nemandinn sýni framúrskarandi hæfni og sé kominn lengra en námsefnið í 10. bekki. Gott ráð við því er að skrá unglinginn í fjarnám í framhaldsskóla í kjarna fögunum. Það þarf að sjálfsögðu að ræða við skólann áður og fá hann til að samþykkja að ef nemandinn nær áfanga á öðru þrepi í framhaldsskóla, þá eigi hann að fá einkunnina A í því fagi. Ef skólinn samþykkir þetta, þá mæli ég með þessari leið, þar sem hún minnkar óvissuna og kvíðann sem fylgir því að vera í skóla sem vill ekki gefa A.
B. Foreldrar sem eiga ungling sem hefur áhyggjur af því að geta ekki sótt um í skóla með bekkjarkerfi
Til að geta sótt um í skóla með bekkjarkerfi, þá þurfa nemendur að ná einkunninni B í öllum kjarnafögunum. Þeir foreldrar sem eru í þessum flokki eru ekki að hafa áhyggjur af ástæðulausu, því unglingurinn þeirra þarf að vera topp nemandi til að enda örugglega með lokaeinkunnina B. Ef hann hefur verið að fá C+ fyrir einhver verkefni eða próf, þá er strax orðin ástæða til að hafa áhyggjur af því hvort að loka einkunninn verði örugglega B.
Hvað er til ráða?
Hérna þarf að vera á tánum allan 10. bekkinn. Fyrir hvert einasta verkefni sem unglingurinn tekur og hann nær ekki B, þá þarf hann að fara fram á að fá tækifæri á að taka það verkefni eða próf aftur, sem fyrst. Eina leiðin til að tryggja að nemandi endi með B, er að hann fái B í öllum verkefnum og prófum í 10. bekk.
C. Foreldrar sem eiga ungling sem er ekki mikið að spá í einkunnir því hann er viss um að ná B
Það eru mjög margir foreldrar í þessum hópi. Unglingurinn er ekkert að stressa sig yfir einkunnum og hefur kannski verið góður námsmaður hingað til og það hvarflar ekki annað að unglingnum eða foreldrum en að hann endi með B í kjarna fögunum.
Þetta er oft erfiðasti hópurinn til að vera í, því ef unglingurinn fær svo C+ við útskrift, þá er það oft mikið sjokk. Það getur nefnilega verið mjög huglægt hvort að unglingur sem sé á mörkunum að fá C+ eða B endi með C+ eða B í lokaeinkunn.
Hvað er til ráða?
Ekki vera í þessum hópi. Þetta er erfiðasti hópurinn til að vera í, því þetta kemur mjög aftan að nemendum og foreldrum ef unglingurinn fær óvænt C+ í lokaeinkunn. Við útskrift er oft of seint að taka bætingar próf, en það er sjálfsagt að hitta kennarana og skoða hvers vegna einkunnin endaði í C+ en ekki B þar sem það er alltaf möguleiki á mistökum.
D. Foreldrar sem eiga ungling sem veit að hann mun ekki ná B og það er bara allt í lagi
Sumir foreldrar eru í þeirri stöðu að eiga ungling sem mun ekki ná B, hann hefur verið að fá C í flestum prófum og nokkur B. Það liggur því alveg ljóst fyrir að hann mun ekki enda með B og það er líka bara allt í lagi. Allir skólar með áfangakerfi bjóða upp á stærðfræðiáfanga á grunnskólastigi (þrepi 1) og það getur verið mjög gott fyrir þá sem standa höllum fæti í stærðfræði að taka einn til tvo stærðfræðiáfanga á grunnskólastigi áður en þeir fara í framhaldsskóla stærðfræði.
Hvað er til ráða?
Hérna þarf ekki að hafa neinar áhyggjur. Allir sáttir og fullt af frábærum skólum sem bjóða upp á að taka stærðfræði áfanga á grunnskólastigi.
—
Ef þú átt barn eða ungling í grunnskóla, þá hvet ég þig til að fylgjast vel með, spyrja spurninga og halda vel utan um unglinginn þinn. Það versta sem við sem foreldrar getum gert, er að halda að allt reddist. Ef þú finnur að unglingurinn þinn hefur áhyggjur og þú sért þá í flokki A., B. eða C. – þá er best að bregðast við tímanlega.