fbpx

Fjöldi heilafruma

Það er svo margt sem við vitum í dag um heilann, sem var ekki vitað þegar ég var unglingur. Í nokkra áratugi var það trú manna að við fæðumst með ákveðinn fjölda heilafruma og við þurfum að passa upp á þær því þær verða ekki fleiri. Ég man líka eftir því þegar ég var unglingur að þá var eldra fólk að segja að það dæju heilafrumur þegar fólk drykki áfengi.

Fjöldi heilafruma

Nú veit ég ekkert hvort að heilafrumur deyja þegar fólk drekkur áfengi, þrátt fyrir að það hafi verið vinsælt að segja það þegar ég var unglingur. En ég veit að við fæðumst ekki með ákveðið magn af heilafrumum sem við getum ekki fjölgað.

Rannsóknir sýna að svæði í heilanum okkar sem heitir dreki (e. hippocampus) er daglega að framleiða nýjar heilafrumur og ein leið fyrir þessar heilafrumur að vaxa og lifa af er að hreyfa okkur. Þess vegna ættum við að líta á hreyfingu sem hluta af námi. 

Fyrir þá sem hafa ekkert sérstaklega gaman af því að hreyfa sig eru þetta frábærar fréttir. Því núna getur viðhorf til hreyfingar verið allt annað. “Ég er úti að hlaupa til að fjölga heilafrumum!”. Það dugar líka að fara út að ganga, svo þessi hreyfing þarf ekki að vera neitt svakaleg. 

Fyrir þá sem hafa gaman að hreyfa sig, skiptir þetta ekki miklu máli – en fyrir þá sem finnst það hundleiðinlegt getur þetta verið mikil hvatning að byrja að hreyfa sig. Hvers vegna? Jú, því viðhorf til hreyfingar er allt annað eftir þessar upplýsingar!

Það sama á við stærðfræði. Margir hafa rosalega gaman af stærðfræði, öðrum finnst stærðfræði hundleiðinleg. En ef það er hægt að breyta viðhorfi nemenda til náms, t.d. með því að segja þeim nýjustu fréttirnar: 
– að allir geta lært stærðfræði og allir geta orðið góðir í stærðfræði
– það er ekki til neitt sem heitir “fæddur góður í stærðfræði” (e. math person)
– það er allt í lagi að nota puttana til að telja
– sumir eru lengi að fatta nýtt efni og það tengist ekki getu þeirra til að læra stærðfræði
– það er gott að fá villur, því þá erum við að læra nýtt (búa til nýjar tengingar í heilanum)
– …

Þegar nemendur fá þessar nýju fréttir verður það yfirleitt til þess að nemendur fá aðra sýn á stærðfræði og stærðfræðin verður auðveldari t.d. af því að núna gengur stærðfræði ekki út á að vera fljótur að fatta! 

Ég legg mikið upp úr að vinna með viðhorf nemenda, líka þeirra sem finnst stærðfræði æðislega skemmtileg og þurfa kannski ekki á því að halda. Því það er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um þessar gömlu mýtur sem eru í gangi í samfélaginu um stærðfræði.

Svo eins og alltaf, þá væri gaman að heyra frá þér. T.d. kannast þú við að hafa heyrt þetta með heilafrumurnar? Hefur þú kannski ekki heyrt fréttirnar með drekann?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: