fbpx

Að líða vel með að líða illa

Þegar nemendur eru að læra stærðfræði, þá eru þeir í nánast öllum tilfellum að byggja ofan á grunn sem þeir hafa fyrir. En sérhver ný viðbót er aðeins erfiðari en sá grunnur sem þeir hafa fyrir.

Það er alltaf erfitt fyrir heilann að læra nýtt efni. En því erfiðara sem það er fyrir nemandann, því betur nær hann að festa í minni það sem hann er að læra. Það er því ekki eins gott að mata nemendur af upplýsingum (segja þeim nákvæmlega hvað á að gera), eins og að láta nemendur hafa fyrir því að læra eitthvað með því að þurfa að hugsa það sjálfir – allavega til að byrja með.

Við þurfum þess vegna að kenna nemendum að líða vel með það að líða illa – þ.e.a.s. það mun alltaf koma inn á milli tímabil í stærðfræði sem eru erfið og þeir þurfa að venjast því og gera sér grein fyrir að þá eru þeir að læra eitthvað nýtt.

Þegar ég var að læra tölvunarfræði í HÍ, þá fann ég svo sterkt hvað það skipti miklu máli fyrir mig að reyna að leysa flókin stærðfræðiverkefni sjálf, áður en kennarinn leysti verkefnin. Því meiri tíma sem ég varði í að hugsa og velta fyrir mér verkefnunum, því betur skildi ég lausnina þegar kennarinn kom með hana.

Nemendur þurfa að fá tækifæri til að hugsa, til að festa betur í minni það sem þeir eru að læra. Það má því segja að því minna sem nemendur þurfa að hugsa í stærðfræði, því verr læra þeir efnið. Ef nemendur eru mataðir af upplýsingum, þá hangir þekkingin í vinnsluminninu og nær ekki að tengjast við langtímaminnið, því til þess, þá þurfa þeir að fá tækifæri til að hugsa efnið dýpra.

Við getum ekki stjórnað því hvernig kennslan fer fram í tímunum í skólanum. En það sem við getum gert er að bregðast við þegar unglingurinn okkar er að tala um að stærðfræðin sé erfið í skólanum eða þegar hann er að vinna verkefni heima og finnst hann vera alveg stopp. Þegar sú staða kemur þá getur þú haldið smá fyrirlestur um það, að til þess að verða góður í stærðfræði þá er besta leiðin að lenda í erfiðleikum og þurfa að hafa svolítið fyrir að læra heima í stærðfræði.

Ef hann er að gera verkefni og er eldsnöggur að því, þá var það verkefni líklega of létt og hann er ekki að læra neitt nýtt. Ef hann lendir í erfiðleikum, þá er það frábært tækifæri fyrir hann að hugsa. Kannski liggur hann yfir verkefninu í langan tíma en getur samt sem áður ekki náð að leysa það eða finna út úr því. Það er allt í lagi, svo lengi sem hann spyr kennarann næst “kennari, ég er búinn að liggja yfir þessu verkefni, en skil ekki hvers vegna…..”. Sem sagt, biðja kennarann að rýna í með sér hvað hann er búinn að hugsa og hvers vegna sú leið gengur ekki upp.


Posted

in

by

Tags: