Margir nemendur halda að þeir séu einir af þeim fáu sem upplifa mikinn prófkvíða, en rannsókn á vegum OECD leiddi í ljós að 59% nemenda glíma við prófkvíða.
Mikill prófkvíði verður til þess að framheilinn (vinnsluminnið), sem á að vinna í að sækja allt það sem við erum búin að læra, frýs og getur ekki sótt upplýsingar sem eru til staðar.
Ég hef sjálf glímt við mikinn prófkvíða. Ég áttaði mig fyrst á að prófkvíði væri vandamál hjá mér þegar ég var í tölvunarfræði í Háskóla Íslands. Þá var ég búin með menntaskóla og Kennaraháskóla Íslands, en námið var þess eðlis í tölvunarfræðinni að ég þurfti að fara yfir mjög mikið efni. Ég var svo heppin að ég fékk fljótleg hjálp frá námsráðgjöfum Háskólans, sem fólst í því að ég fór á námskeið hjá þeim þar sem ég lærði námstækni og leiðir til að slaka á. Í kjölfarið fékk ég svo alltaf að taka öll próf í sér stofu með lengdan próftíma. Þessi aðstoð breytti öllu fyrir mig. Prófkvíðinn fór ekki, en allt í einu hafði ég tæki og tól til þess að vinna með til að draga úr kvíðanum.
En hvað er hægt að gera til þess að draga úr að nemendur upplifi prófkvíða? Það er einkum þrennt:
Stuðningur foreldra og kennara
Í tengslum við þessa rannsókn á vegum OECD, þá skiptir stuðningur foreldra og kennara miklu máli. Ef foreldrar og kennarar vinna markvisst í að styrkja sjálfstraust nemenda og aðstoða þá við að setja sér raunhæf markmið, þá getur það dregið verulega úr prófkvíða.
Kenna nemendum hvernig heilinn virkar
Aðrar rannsóknir benda einnig á að hægt sé að kenna nemendum hvernig heilinn þeirra virkar og sýna fram á að stress getur hjálpað nemendum að ná enn betri árangri í prófi! Þannig að þegar nemendur upplifa þessi stress einkenni (hnút í magann, sveittir lófar, flökurleiki) að þá tengi þeir strax við að þessi einkenni séu jákvæð. Ég hef skrifað um þetta áður, ef þú vilt lesa það hér.
Kenna nemendum að læra fyrir próf
Annað sem mér finnst skipta miklu máli og ég hef sjálf sem kennari reynslu af, til að minnka verulega prófkvíða, er að kenna nemendum að undirbúa sig fyrir próf. Staðreyndin er nefnilega sú að nemendur í grunnskóla kunna yfirleitt ekki að undirbúa sig fyrir stærðfræðipróf. Sumir halda að það sé ekki hægt að undirbúa sig, annað hvort kanntu efnið vel eða ekki. Aðrir verja töluverðum tíma í að undirbúa sig, en eru ekki að undirbúa sig markvisst í því efni sem er til prófs. Ég hef skrifað um áður hvernig nemendur geta undirbúið sig undir próf í stærðfræði.
Það er ekkert ólíklegt að unglingurinn þinn glími við prófkvíða. Það sem þú sem foreldri getur gert er að:
- Hrósa honum þegar hann sýnir vinnusemi og þrautseigju (til lengri tíma styrkir það sjálfstraustið).
- Gera honum grein fyrir að hann þurfi að leggja eitthvað á sig til að ganga vel á prófinu (setja sér raunhæf markmið).
- Frætt hann um að stress getur hjálpað honum í prófi (fræða um virkni heilans).
- Og aðstoðað hann við að skipuleggja sig fyrir próf (veit hann úr hvaða bók er prófað, hvaða köflum og hvaða dæmi þarf að skoða sérstaklega?)
Prófkvíði er ekki eitthvað sem hægt er útrýma á stuttum tíma. Þetta er að stórum hluta viðhorfsbreyting sem þarf að vinna með yfir lengri tíma.
Ertu kannski með einhverjar spurningar? Ef svo er, hikaðu ekki við að hafa samband með því að svara þessum pósti 🙂
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
Hjá stærðfræði.is