fbpx

Endurtekningar í stærðfræði

Ég hef oft heyrt kvartað yfir því, bæði frá nemendum og foreldrum, að nemendur séu látnir reikna of mikið af “eins” dæmum.

Endurtekningar í stærðfræði
Endurtekningar eru mikilvægar – en það þurfa ekki allir að reikna jafn mörg dæmi

Miklar endurtekningar eru samþykktar sem leið til að læra þegar kemur að íþróttum og tónlist. En þar eiga nemendur að endurtaka ákveðið ferli alveg þar til þeir hafa náð færni á því sem þeir eru að læra.

En eins og kom fram á ráðstefnunni sem ég hlustaði á um daginn (og vísaði í í síðasta pósti), þá er búið að rannsaka að nemendur þurfa ekki bara miklar endurtekningar þegar kemur að íþróttum og tónlist – heldur þurfa þessar endurtekningar líka að vera í stærðfræði og lestri.

Nemendur eiga ekki að fara áfram í stærðfræði, fyrr en þeir hafa náð góðum tökum á efninu, sama á við um lesturinn. En hver er munurinn á stærðfræði og lestri annars vegar og íþróttum og tónlist hins vegar?

Munurinn er nefnilega sá að t.d. í stærðfræði er miðað við að allir geri það sama – óháð getu og grunni (og það sama á við í lestri). En staðreyndin er hins vegar sú að meðan Gunna þarf bara að reikna 5 dæmi til að ná tökum á nýju efni, þá þarf Anna kannski að reikna 15 dæmi. Samt eru allir látnir reikna 7 dæmi, sem verður til þess að Gunnu leiðist og Anna fær ekki nógu góða þjálfun.

Þessi einstaklingsmiða nálgun er nefnilega einmitt til staðar í íþróttum og tónlist. Ef við tökum tónlist sem dæmi, þá veit nemandinn og kennarinn hvenær nemandinn er búinn að æfa ákveðinn lagabút nógu oft og getur haldið áfram.

En hvað er hægt að gera í þessu?

Það er alltaf hægt að finna einhverjar lausnir. T.d. er hægt að leggja áherslu á að allir þurfi ekki að reikna jafn mörg dæmi og meta hvaða nemandi þarf að æfa sig minna og hvaða nemandi þarf að æfa sig meira.

Svo eru til æfingavefir þar sem hægt er að þjálfa upp færni alveg þar til henni er náð, þar sem sumir nemendur reikna bara örfá dæmi, meðan aðrir þurfa að reikna mjög mörg dæmi. Á námskeiðunum hjá mér, þá nota ég einmitt svona æfingavef til að allir fái þann dæmafjölda sem þeir þurfa til að ná góðum tökum á efninu.

Lykilatriðið er að við séum meðvituð um að til að ná árangri í stærðfræði og lestri, þá þurfum við endurtekningar – en við verðum að gera okkur grein fyrir að við getum ekki látið alla nemendur æfa sig jafn mikið.

Síðast talaði ég um mikilvægi endurgjafar og núna er ég að tala um mikilvægi endurtekningar, en í raun er þetta tvennt samhangandi. Í stærðfræði þurfa nemendur að fá endurgjöf til að vita hvort þeir séu að gera rétt og ef endurgjöfin gefur til dæmis til kynna að nemendanum gangi vel, þá þarf hann að reikna færri dæmi en nemandi sem gengur ekki eins vel.

Hvernig er þessu háttað hjá þínum unglingi? Veistu hvort að allir eigi alltaf að reikna jafn mörg dæmi eða hvort að fjöldi dæma séð háð því hvernig nemandanum gangi? Þú mátt endilega láta mig vita með því að svara þessum pósti.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: