Þegar unglingar stunda íþróttir, þá er yfirleitt nóg að mæta á æfingu og árangurinn skilar sér.
En þegar kemur að því að vinna með hausinn, eins og í stærðfræði, þá er alls ekki nóg að bara mæta. Ég er alltaf með einhverja nemendur sem mæta ágætlega, en nenna ekki að gera neitt og halda samt sem áður að þeir séu að læra eitthvað í stærðfræði, af því að þeir eru að mæta í tíma.
Þetta sama gildir um einkatíma í stærðfræði, það er ekki nóg að mæta.
Þegar ég tók að mér einkatíma (í raunheimi) í stærðfræði, þá fékk ég til mín tvo ólíka hópa af nemendum.
Í öðrum hópnum voru nemendur sem höfðu beðið foreldri um aukatíma, mættu undirbúnir, vissu hvað þeir vissu ekki og voru búnir að merkja við dæmi sem þeir vildu fara yfir.
Hinn hópurinn mætti bara. Var greinilega sendur af foreldri, sem var með áhyggjur af gengi unglingsins í stærðfræði. Nemendur í þessum hópi, voru ekki með neinar spurningar, vissu yfirleitt ekki hvað þeir voru að gera í skólanum og gleymdu stundum að mæta með bækurnar. Það var því erfitt að finna út úr því hvaða efni ætti að fara yfir. Því miður var þetta stærsti hluti nemenda, að fá nemendur úr fyrri hópnum var algjör undantekning.
Nemendur í fyrri hópnum fengu mikið út úr einkatímunum. Nemendur úr seinni hópnum græddu lítið á þessum tímum því að áhuginn við að ná tökum á stærðfræði var lítill.
Það má yfirfæra þetta yfir á nám í skólastofu. Þeir nemendur sem bara mæta, gleyma stundum bókum, vita ekki hvaða efni þeir eru að læra í stærðfræði og er alveg sama – fá lítið út úr því að mæta í stærðfræðitíma. Aftur á móti nemendur sem mæta og vita hvaða efni er verið að fara yfir, gera sér grein fyrir hvað þeir skilja og hvaða efni þeir þurfa aðstoð með, fá mjög mikið út úr stærðfræðitímanum.
Hvað getur þú sem foreldri gert til að gera unglinginn þinn fái meira út úr stærðfræðitímunum í skólanum? Þú getur spurt hann hvaða efni sé verið að fara yfir (ef hann veit það ekki, þá biðja hann að fletta því upp) og svo spurt hann hvort að það sé eitthvað sem hann skilji ekki og beðið hann þá að merkja við það efni, til að geta spurt kennarann í næsta tíma.
Ertu með einhverjar spurningar? Ef svo er, hikaðu ekki við að hafa samband með því að svara þessum pósti.