fbpx

Einstaklingsmiðað nám

Hugleiðingar mínar þennan sunnudag felast í kennsluaðferðum, en ég er að taka námskeið á Menntavísindasviði í HÍ sem gengur út á að kynna fjölbreyttar nálganir stærðfræðikennslu í framhaldsskólum.

Einstaklingsmiðað nám

Flestar kennsluaðferðir miðast við að nemendur séu að fara í svipað efni á sama tíma. Reynt er að koma til móts við hæga nemendur og aðlaga efnið að þeirra þörfum og fyrir sterkari nemendur gefst þeim oft kostur á að kafa dýpra í sama efni.

Algeng kennsluaðferð í grunnskóla, kallast bein innlögn og gengur út á að kennarinn kynni ákveðið efni upp á töflu og svo eiga nemendur að reyna sjálfir að leysa samskonar dæmi. Önnur kennsluaðferð sem var mjög vinsæl fyrir nokkrum árum er vendikennsla, þar sem nemendur “horfa á kennsluna heima” en mæta síðan í skólann til að fá aðstoð. Þrautalausnir og ýmsar útgáfur af samvinnu eða hópastarfi eru einnig vinsælar. Nýjasta kennsluaðferðin er síðan hugsandi kennslustofa, þar sem nemendur vinna í hópum við að hugsa og leysa krefjandi dæmi á töflu.

Allar þessar aðferðir hafa sína kosti og galla, en stærsti gallinn, að mínu mati er að þær miðast við að nemendur séu að vinna í sama efni á sama tíma. Fyrir mér þýðir það að framúrskarandi nemendur í stærðfræði þurfa að bíða eftir hinum og þeir sem eru hægir og ná ekki að fylgja hópnum ná ekki að byggja upp nægilega góðan grunn í stærðfræði.

Skoðanir mínar litast kannski af því hvernig umhverfi ég er búin að vera að kenna í síðasta áratug. En þegar ég er að kenna í kennslustofu (í framhaldsskóla), þá er ég að kenna allskonar nemendum með missterkan grunn í stærðfræði. En í þessum hópi eru nemendur í þremur (jafnvel fjórum) mismunandi áföngum í stærðfræði og enginn nemandi er á sama stað, þrátt fyrir að vera í sama áfanga og einhver annar.

Það þýðir að framúrskarandi nemendur geta “brunað” áfram í efninu og tekið tvo, jafnvel þrjá stærðfræðiáfanga á einni önn. Þeir sem eru hægari eða missa mikið úr vegna veikinda geta þurft tvær annir til að klára einn áfanga. Þeim sem finnst efnið ekki of létt og eru ágætlega staddir námslega séð taka einn áfanga á önn.

Hjá mér fer ekki fram nein töflukennsla, en ég geng á milli nemenda og aðstoða, reyni að fá þá til að hugsa, æfa sig í að nota stærðfræðihugtök, spyrja góðra stærðfræðispurninga og æfa sig í að nota rannsóknar viðhorf þegar þeir nálgast hvert dæmi.

Fyrir mér, er alveg galið að hugsa til þess að allir eigi að vera að gera sama efni á sama tíma. Hvað með nemandann sem kann allt og gæti verið að takast á við meira krefjandi verkefni? Hvað með nemandann sem þarf meiri tíma, meiri stuðning og verður svo veikur? Fær hann þá enga kennslu og stuðning í því efni sem hann missti af?

Samkvæmt grunnskólalögunum eiga nemendur rétt á einstaklingsmiðuðu námi, en það er óljóst hvað það merkir. Fyrir mér þýðir það að námið sé sniðið að einstaklingnum og hans þörfum, en svo eru sérfræðingar sem túlka þetta orðalag að kennarinn eigi að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir til að mæta ólíkum þörfum nemenda, en kenna öllum sama efnið á sama tíma.

Hvernig er staðan á þínum ungling? Veistu hvaða kennsluaðferð er notuð í skólanum hans? Hentar þessi kennsluaðferð þínum unglingi? Finnst þér að farið sé of hratt eða of hægt yfir efnið? Hvernig gæti skólinn komið betur til móts við þinn ungling í stærðfræði? Smelltu endilega á “svara” við þessum pósti og láttu mig vita.


Posted

in

by

Tags: