Núna er upphaf nýrrar annar í grunnskólum landsins, en áður en við vitum af er komið vor. Það er því gott að huga strax að því hvernig staða þíns barns eða unglings er í stærðfræði.

Þrátt fyrir að þessi póstur sé mest aðkallandi fyrir foreldra sem eiga nemendur í 10. bekk, þá ætti þetta að skipta alla foreldra máli því áður en þú veist af er þitt barn eða unglingur kominn í 10. bekk.
Eins og þú hefur eflaust orðið var við, þá er mismunandi eftir skólum hvernig einkunnin A er skilgreind. Í sumum skólum er hægt að fá A ef þú færð allt rétt í öllum hlutaprófum á meðan í öðrum skólum er ekki hægt að fá A nema nemandinn sé kominn í efni sem tilheyrir framhaldsskólastigi.
Það er auðvitað mjög ósanngjarnt að skólar séu ekki með samræmi á milli einkunna í bókstöfum, þar sem framhaldsskólarnir taka mið af þeim einkunnum.
Mitt mat á einkunnakerfi í grunnskólum er að það ætti að gefa einkunnir í tölustöfum eins og gert var fyrir nokkrum árum og bæta við skriflegri umsögn. Ástæðan er fyrst og fremst sú að hver skóli er núna með sínar eigin skilgreiningar á hvað liggur að baki hvers bókstafs.
Ef það á að nota bókstafi sem matskvarða í grunnskólum þá finnst mér að það þurfi að nota aðra bókstafi en A, B og C þar sem þeir hafa allt aðra merkingu annars staðar í heiminum. T.d. er C í Bandaríkjunum einkunn á bilinu 7-8 á meðan bókstafurinn C á íslandi, við lok 10. bekkjar í stærðfærði, er fall (þar sem þeir nemendur þurfa að taka aftur grunnskólastærðfræðina í framhaldsskóla).
Skv. aðalnámskrá grunnskólanna er ekki gert ráð fyrir að nemendur fái A, það er einungis hugsað fyrir framúrskarandi nemendur sem eru t.d. byrjaðir í framhaldsskólastærðfræði. B á Íslandi (við útskrift í 10. bekk) er því einkunn á bilinu 5-10, eins og við foreldrar þekkjum frá því við vorum í skóla. Nemendur sem fá C+ og C, þurfa að taka einn grunnskólaáfanga í framhaldsskóla og nemendur sem fá D+ eða D þurfa að taka tvo grunnskólaáfanga í framhaldsskóla.
Hvað getur þú gert með allar þessar upplýsingar?
Ef þú átt ungling sem langar að fá B við lok 10. bekkjar í stærðfræði og er tilbúinn að leggja á sig vinnuna sem þarf til þess, þá þarf hann að leggja áherslu á að fá B í öllum hlutaprófum í stærðfræði. Ef hann fær ekki B, þá á hann að fá tækifæri til að taka bætingapróf í því efni, en hann þarf að sjálfsögðu að undirbúa sig virkilega vel fyrir það próf til að eiga möguleika á að hækka sig upp í B.