Ef við trúum því að við getum ekki lært stærðfræði, þá eru ágætis líkur á að við getum ekki lært stærðfræði. En hvers vegna trúa sumir nemendur að þeir geti ekki lært stærðfræði?
Það geta auðvitað verið margar ástæður fyrir því, t.d. getur verið að einhver hafi sagt “þú getur aldrei lært stærðfræði”, það getur verið að lélegar einkunnir hingað til séu eitthvað sem unglingurinn líti á sem staðfestingu á því að hann geti ekki lært stærðfræði. Þeir sem eru lengi að “fatta” nýtt efni í stærðfræði gætu líka haldið að þeir gætu ekki lært stærðfræði.
En sama hver ástæðan er, þá er yfirleitt hægt að rekja hana til einhvers misskilnings um hvernig við lærum stærðfræði og hvernig við verðum góð í stærðfræði.
Það sem ég heyri nemendur, sem standa höllum fæti í stærðfræði, segja er t.d.: “Ég kann þetta ekki”.
Að segja þetta, gefur til kynna að nemendur halda að þeir eigi ekki að þurfa að læra eitthvað nýtt þegar þeir mæta í stærðfræðitíma og halda jafnvel að þeir eigi ekki að þurfa að hugsa neitt.
Það er því mikilvægt að við séum stanslaust að minna nemendur á að:
- Allir nemendur geta orðið góðir í stærðfræði
- Það er ekkert sem þeir geta ekki lært (en það getur tekið tíma)
- Þeir þurfa að æfa sig í að þjálfa rannsóknar hugarfar þegar þeir eru í stærðfræði
- Það er gott að fá villur, það er gott að giska og prófa – þannig lærum við hraðar
- Hver einasti stærðfræðitími ætti að vera tækifæri á að læra eitthvað nýtt
Ef þú átt ungling sem stendur höllum fæti í stærðfræði, veistu þá hvað hann er að segja við sjálfan sig þegar kemur að stærðfræði? Ég get nánast lofað þér að það er ekki neitt uppbyggilegt eða jákvætt.
Ef þú heyrir unglinginn þinn t.d. segja “ég kann þetta ekki”, þá er mikilvægt að hann viti að það sé einmitt þess vegna sem hann sé að læra þetta og hann muni bráðum kunna þetta efni ef hann er tilbúinn að nálgast efnið með rannsóknar hugarfari og óhræddur við að prófa sig áfram og gera mistök.
Það væri gaman að heyra frá þér, veistu hvaða orð unglingurinn þinn notar eða segir þegar kemur að stærðfræði?