Flest nám krefst einbeitingar, sérstaklega nám eins og stærðfræði. En staðreyndin er sú að nemendur eiga mun erfiðara núna en áður með að einbeita sér. Fyrir tíu árum þótti lúxus að fá að horfa á bíómynd í kennslustund, í dag er það kvöl og pína fyrir flesta nemendur að þurfa að þrauka út eina bíómynd. En ef nemendum finnst að horfa á heila bíómynd erfitt í dag, þá má ímynda sér hvaða breytingar hafa orðið þegar kemur að einbeitingu í námi á síðustu tíu árum.
Vonandi ertu sammála mér að við þurfum að hjálpa unglingunum okkar að æfa sig í að einbeita sér. Einbeiting er ekki eitthvað sem einhver ákveður að gera eins og “á morgun ætla ég að byrja að búa um rúmið alla morgna”. Einbeiting er færni sem þarf að þjálfa reglulega. Til að byrja með gengur það líklega ekki vel, en svo með ákveðnum aðferðum og markvissum æfingum verður auðveldara og auðveldara að ná að einbeita sér yfir lengri tíma.
Heili okkar flestra í dag er víraður þannig að um leið og eitthvað er pínu leiðinlegt eða erfitt, þá tökum við strax upp símann. T.d. ef við erum að bíða á biðstofu, erum að takast á við krefjandi verkefni eða um leið og það kemur einhver tilkynning á símann. Það þýðir að ef við viljum mastera að vera góð í einbeitingu, þá þurfum við líka að setja okkur mörk þegar kemur að símum og mastera listina að drepast úr leiðindum með því að fara ekki í símann!
En hvernig er best að þjálfa sig í að ná að einbeita sér yfir lengri tíma án þess að gefast strax upp og æfa sig í að leiðast og líta á það sem frábæra þjálfun í því að endurvíra heilann?
Ef ég miða við þau ráð sem “vinur minn” Cal Newport gefur í bókinni sinni Deep Work sem er skrifuð fyrir þekkingarstarfsmenn (e. knowledge workers), og ég hef aðlagað að námsönnum, þá er það einkum tvennt sem nemendur geta gert til að æfa sig í að verða betri og betri í að einbeita sér:
- Þegar unglingurinn þinn er að læra, þá þarf að hann að ákveða hvað hann ætlar að læra, hversu lengi hann æltar að læra og síðan taka frá allt áreiti. Mitt ráð til allra unglinga, er að þegar þeir eru að læra heima, þá ætti síminn alltaf að vera á hljóðlausri stillingu í einhverri eldhússkúffu. Heilinn okkar ræður ekki við að hafa símann í augnsýn eða innan seilingar, því þá er heilinn ómeðvitað að hugsa um símann og sú hugsun minnkar færni í einbeitingu.
- Á meðan unglingurinn þinn er að læra, mun koma upp sú hugsun, að hann þurfi nauðsynlega að fara í símann og tékka á einu til að geta haldið áfram með lærdóminn (t.d. athuga aftur hvaða dæmi hann þarf að reikna). Ef það gerist er mikilvægt að láta ekki undan, heldur finna eitthvað annað til að læra í staðinn eða í versta falli jafnvel bara stara út í loftið og láta sér leiðast og hugsa um að þetta sé ekki bara tími til að læra heldur einnig æfing í að fara ekki í símann á þeim tíma sem unglingurinn tók frá til að læra. Eins og með allt, þá verður þetta gríðarlega erfitt til að byrja með, en ef unglingurinn þinn stenst freistinguna, þá verður þetta mjög fljótt auðveldara.
Ég hef markvisst verið að þjálfa mína nemendur í stærðfræðitímum í að þjálfa einbeitinguna og breytingin sem hefur orðið á úthaldi og áhuga eftir að stærðfræðitímarnir mínir urðu símalausir er hreint út sagt stórkostleg.
Hvernig er með þinn ungling, er hann alltaf með símann hjá sér þegar hann er að læra heima? Ef svo er, þá væri spurning hvort hann væri til í að prófa að setja símann í eldhússkúffuna meðan hann er að læra. Það eitt mun minnka tímann sem hann þarf til að komast yfir ákveðið efni og hann mun fljótt ná að byggja upp betra og meira úthald þegar kemur að því að halda einbeitingu við lærdóminn.