Dagur stærðfræðinnar var í vikunni sem leið og eins og í fyrra gafst mér kostur á að hitta nokkur hundruð krakka og tala við þá um stærðfræði. Ég hef marg oft hitt unglinga og rætt við þá um stærðfræði, en þetta er í fyrsta skipti sem ég tala um stærðfræði við nemendur allt niður í 4. bekk.
Það sem kom mér svo skemmtilega á óvart er að nemendur í 4. bekk eru svo miklir rannsakendur og óhræddir við að giska á svör við spurningum sem þeir fá. Ef ég spurði t.d. vitið þið hvað þrautseigja þýðir? Þá rétti stór hluti hópsins í 4. – 5. bekk upp hönd. Margir réttu upp hönd af því að þeim langaði svo að prófa að giska á hvað það þýddi!
Hversu frábært er það, að vita í raun ekki svarið við spurningunni en þora að giska án þess að hugsa sig tvisvar um!
Þegar ég spurði aðeins eldri nemendur, þá rétti enginn upp hönd, en ég fékk samt svar úr salnum sem var alveg rétt.
Þennan sama dag sveif ég á skýi, ég var svo ánægð með yngri krakkana sem voru svo miklir rannsakendur og þorðu að giska. Jafnframt hugsaði ég hvað væri hægt að gera til að viðhalda því að þora að svara, þrátt fyrir að vita ekki hvort að svarið sé rétt?
Ég hef oft endað stærðfræði tímana mína, á leiknum hengi mann, þar sem ég er búin að hugsa mér eitthvað stærðfræðihugtak sem nemendur eiga að giska á. Það er ekkert mál fyrir unglinga að giska á hugsanlegan staf, enda er engin áhætta fólgin í því að giska á staf sem á ekki heima í orðinu sem ég er að spyrja um. Unglingar eru því alls ekki hræddir við að giska, ef áhættan er engin.
Það sem ég hef gert í tímum hjá mér til að hvetja nemendur til að þora að giska er t.d. ef ég er með nemanda sem spyr mig “hvað er 5x + 2x?”, þá svara ég “hvað heldur þú?”. Ef hann segist ekki vita það, þá bæti ég við,…., “giskaðu bara eitthvað sem þér dettur í hug, skiptir engu máli hvort það sé rétt eða ekki”. Það er nefnilega oftast þannig að nemendur hafa 99% hugmynd um hvað svarið eigi að vera, en ef þeir eru ekki 100% viss, þá þora þeir ekki að svara.
Ég trúi því að það sé hægt að viðhalda þessu þori að svara, þrátt fyrir að vera ekki 100% viss um svarið. Ef við náum að viðhalda því, þá er það einmitt hluti af rannsóknarviðhorfi sem er svo mikilvægt í stærðfræði. Stundum er það sem við giskum á rétt, en ef það er ekki rétt, þá er það líka frábært, því þá er nemandinn að læra eitthvað nýtt og kemst nær því að leysa verkefnið eða dæmið.
En hvernig geta foreldrar hvatt unglingana sína til að þora að rannsaka og fá röng svör í stærðfræði? Það sem mér dettur helst í hug er að ítreka við unglinginn sinn að stærðfræði sé rannsóknarvinna og það sé gott að fá villur, því þá sé það tækifæri fyrir unglinginn að læra eitthvað nýtt.