fbpx

Bætingapróf

Tíminn flýgur og áður en við vitum af er komið vor. Það þýðir að ef þú átt ungling í grunnskóla, þá er farið að styttast í annan endann á skólaárinu. Það þýðir líka að ef þú átt ungling í 10. bekk, þá er núna rétti tíminn til að skoða hvort að þinn unglingur ætti að óska eftir bætingaprófi.

Bætingapróf

En hvað er bætingapróf? Aðalnámskrá grunnskólanna gerir ráð fyrir að nemendur í 10. bekk hafi náð ákveðnum hæfniviðmiðum við lok 10. bekkjar. Bætingapróf er próf þar sem nemendum gefst kostur á að bæta fyrri einkunn. Sem þýðir að ef unglingur hefur verið prófaður í ákveðinni hæfni t.d. í janúar og fengið C eða D, að þá á hann að fá tækifæri til að bæta þá einkunn fyrir skólalok.

En það er ekki þar með sagt að allir nemendur ættu að óska eftir bætingaprófi. Bætingapróf eru fyrir nemendur sem eru tilbúnir að taka á sig fulla ábyrgð, eru tilbúnir að finna út hvernig þeir geta undirbúið sig sem allra best fyrir bætingaprófið og þurfa síðan að vera tilbúnir að leggja á sig þá auka vinnu sem þarf til að undirbúa sig undir prófið.

Það er því ekki nóg að langa til að bæta sig eða eiga foreldra sem vilja að þeir bæti sig. Þessir nemendur sem vilja óska eftir bætingaprófi þurfa að taka fulla ábyrgð og vera tilbúnir að finna út hvað þeir þurfa að gera til að undirbúa sig fyrir prófið og vera síðan tilbúnir til að vinna þá miklu auka vinnu sem þarf til þess að þeir geti bætt sig.

Ef þú og þinn unglingur komist að þeirri niðurstöðu að hann langi að bæta sig, þá þekkja ekki margir skólar orðið “bætingapróf” og því öruggast að spyrja bara “hvort að hann geti fengið tækifæri á að bæta ákveðna einkunn”. Það er þó einn grunnskóli sem ég veit um, sem býður sérstaklega upp á bætingapróf fyrir alla nemendur í lok hverrar annar!

Mér finnst mikilvægt að þeir nemendur sem leggja mikið á sig og vilja standa sig í grunnskóla, leitist við að fá tækifæri til að bæta sig. Einkunnir í kjarnafögum við lok 10. bekkjar skipta miklu máli við inntöku í framhaldsskóla og því gæti verið nauðsynlegt fyrir nemendur að fylgjast vel með C-um og D-um í Mentor og reyna hvað þeir geta til að hífa það upp í B.


Posted

in

by

Tags: