Vissir þú að það græða ekki allir nemendur á því að fara í aukatíma? Ef þú átt ungling sem stendur höllum fæti í stærðfræði, en það hentar honum samt ekki að taka bara námskeið á netinu, þá langar mig til að vara þig smá við, en jafnframt veita þér ráð hvernig hann getur fengið sem mest út úr aukatímum í stærðfræði!
Í gamla daga (2013), þegar ég var að byrja með námskeiðinn á netinu, þá tók ég einstaka nemendur í aukatíma. Ég get skipt þessum nemendum í tvo mjög ólíka hópa.
Nemandi í hópi A hafði beðið foreldri sitt um að redda sér aukatíma, því það voru nokkur atriði sem hann skildi ekki nógu vel. Hann var búinn að merkja við hvaða efni og dæmi hann skildi ekki og þurfti aðstoð með. Tíminn nýttist honum mjög vel og hann “græddi” mjög mikið á þessum aukatíma.
Nemandi í hópi B langaði ekkert sérstaklega að mæta í þennan aukatíma, en honum var búið að ganga mjög illa í síðustu prófum og fannst efnið of erfitt til að geta fundið út úr því eða spurt í skólanum. Foreldri hans vorkenndi honum og lagði á sig mikla vinnu að finna einhvern sem gæti tekið hann í aukatíma. Hann vissi ekki hvað hann þurfti aðstoð með. Hann beið eftir að ég fyndi það út með því að skoða reikningsbókina hans og stærðfræðibókina. Þegar ég var búin að finna efni til að fara yfir þá vildi hann helst að ég sýndi honum allt (sem er ekki mín aðferðafræði, nemendur þurfa að tala við mig og reikna sjálfir). Auðvitað græddi hann smá á því að mæta til mín, en hann hefði getað nýtt tímann sinn mun betur.
Ég veit um mjög færan einstakling sem tók nemendur í aukatíma. Hún setti það sem skilyrði að nemendur kæmu með spurningar og markmið í hvern tíma. Ef þeir gerðu það ekki, þá var hún “fullbókuð og upptekin” næst þegar kom að því að bóka aukatíma hjá henni.
Svo veit ég um einn í fjölskyldunni sem var að aðstoða frænda sinn með stærðfræði. En frændinn vissi ekki hvað hann vissi ekki, vildi bara láta mata sig á öllu efninu – þessi fjölskyldumeðlimur bauð ekki aftur fram krafta sína til að aðstoða frændann eftir þetta eina skipti.
Það skiptir því miklu máli, að ef þú finnur einhvern sem er tilbúinn að aðstoða þinn ungling í stærðfræði (hvort sem það er fjölskyldumeðlimur eða einhver útí bæ) að unglingurinn þinn mæti undirbúinn í aukatímann.
Hvernig undirbýrð þú þinn ungling fyrir aukatíma í stærðfræði?
Ef unglingurinn þinn er að fá aðstoð frá einhverjum fjölskyldumeðlimi eða einhverjum útí bæ, þá getur þú undirbúið hann með því að fara yfir hvað markmið aukatímans er.
Er hann að fara í aukatímann til að undirbúa sig fyrir ákveðið próf, ef svo er, hvaða efni úr því prófi þarf að leggja áherslu á? Ef hann er ekki að fara í próf, hvaða efni er það þá sem hann skilur ekki, getur hann merkt við það efni í bókinni svo það sé auðvelt að finna það?
Það eitt að undirbúa sig fyrir aukatímann, mun verða til þess að unglingurinn tekur meiri ábyrgð á að skilja efnið og fá aðstoð, tími þess sem aðstoðar mun nýtast betur – sem skiptir sérstaklega miklu máli ef verið er að veita ókeypis aðstoð.
Það væri gaman að heyra frá þér! Hefur unglingurinn þinn farið í aukatíma? Veistu hvort að hann hafi vitað hvað hann þurfti aðstoð með?
Hikaðu ekki við að deila því með mér, með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is