fbpx

Afkomuviðvörun

Núna þegar rétt rúmlega vika er í skólaslit í flestum grunnskólum, þá langar mig að tala aðeins um einkunnir. En eins og ég hef skrifað um áður, þá er mikið ósamræmi á milli skóla sem er að valda miklu andlegu álagi, sérstaklega hjá nemendum sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að fá góða einkunn.

Afkomuviðvörun
Afkomuviðvörun… varðandi einkunnir

Í september árið 2020 kom út skýrsla með niðurstöðum um Mat á innleiðingu aðalnámskrá grunnskólanna. Mikilvægustu atriðin úr skýrslunni að mínu mati voru:

  • Það er ekki samræmi milli skóla hvað nemendur þurfa að uppfylla til að fá t.d. B
  • Sumir skólar gefa ekki A og því er réttur nemenda til náms ekki jafn
  • Sumir skólar leyfa ekki bætingu en nemendur eiga, skv. aðalnámskránni, að fá tækifæri til að bæta sig áður en 10. bekk lýkur

Í kjölfarið á þessari skýrslu, í janúar 2021, kom yfirlýsing frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu (þá Menntamálaráðuneytinu) þar sem meðal annars kom fram:

Til að mæta þeim ábendingum sem finna má í niðurstöðum könnunarinnar er nú unnið að úrbótaaðgerðum í góðu samráði við hagaðila. Skipað verður teymi sérfræðinga sem aðstoðar skóla til að vinna með hæfni- og matsviðmið næstu tvö ár og þannig stuðlað að samræmdum stuðningi við skólastjórnendur og kennara. Greinasvið aðalnámskrár og hæfni- og matsviðmið þeirra verða endurskoðuð og ferli innleiðingar breytinga á aðalnámskrá bætt. Framboð á námsgögnum sem tekur mið af hæfnimiðaðri námskrá verður aukið sem og fræðsla um notkun þess í kennslu. Inntak samræmdra könnunarprófa verður endurskoðað og áhersla lögð á að kennaranám og starfsþróun kennara og skólastjórnenda taki mið af hæfniviðmiðum aðalnámskrár.

Skýrslan kom út í september 2020, núna er sumarið 2023 og það er enn:

  • Ekkert samræmi milli skóla hvað þarf til að fá B
  • Sumir skólar gefa A, aðrir ekki
  • Sumir skólar leyfa bætingu, aðrir ekki

En stóra breytingin sem búið er að gera, er að núna er búið að taka út samræmd könnunarpróf, þannig að það er ekki nokkur leið fyrir skóla, kennara, foreldra og nemendur að hafa einhvern samanburð á stöðunni.

Af hverju þarf þetta að vera svona flókið. Er ekki bara hægt að útbúa eitt plagg sem segir hvernig á að lesa úr þessari aðalnámskrá, þar sem komið er í veg fyrir stóra misskilningin og ósamræmi á milli skóla?

Það eru skólar sem eru þekktir fyrir að standa sig mjög vel og vinna algjörlega eftir aðalnámskránni og svo eru líka skólar sem eru þekktir fyrir að hunsa allt og nota sínar aðferðir. Ég veit hvaða skólar þetta eru sem eru að standa sig vel og væri ekki ráð að nota þá sem fyrirmynd og flýta þessu ferli þannig að það sé samræmi á milli grunnskólanna þegar kemur að einkunnagjöf?

Ef þú átt ungling sem er að klára 10. bekk og hefur miklar áhyggjur af einkunnum, þá finn ég mikið til með þér. Það er fátt erfiðara en að “díla” við skóla sem vilja ekki viðurkenna og fara eftir leikreglum aðalnámskrárinnar og enn erfiðara að það sé ekkert að gera í því, þó búið sé að gefa út skýrslu og loforð.

Ef þú átt barn eða ungling sem er ekki að útskrifast úr grunnskóla, þá hvet ég þig til að kanna strax í upphafi næsta skólaárs hvort að skólinn sé að túlka aðalnámskránna rétt.

Þetta er mitt hjartans mál. Ef þú vilt deila einhverjum einkunnasögum með mér, þá vil ég endilega heyra þær – svo hikaðu ekki við að senda mér póst með því að svara þessum pósti.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

by

Tags: