Ég rakst á viðtal við nemanda sem var í stærðfræðinámi við Stanford háskóla í Bandaríkjunum. Hún sagði í viðtalinu að hún hefði haft mikinn áhuga á stærðfræði í fyrsta bekk grunnskóla en misst hann strax í öðrum bekk, þar sem hún þurfti að læra margföldunartöfluna utan að. Þar sem utanbókarlærdómurinn gekk illa, var hún fljótlega stimpluð sem nemandi sem væri ekki góð í stærðfræði. Hún var mjög svekkt því hana langaði að fá að æfa með Ólympíuliði skólans í stærðfræði.

Í sjötta bekk fékk hún stærðfræðikennara sem lagði fyrir þrautir og krefjandi verkefni sem áhugasamir nemendur gátu spreytt sig á. Þá vaknaði áhugi hennar á stærðfræði á ný og hún fór að trúa því að hún gæti náð árangri í greininni. Í sjöunda bekk skipti hún um skóla, en í nýja skólanum var enginn sérstakur Ólympíuhópur í stærðfræði sem aðeins útvaldir nemendur gátu tekið þátt í. Þess í stað gátu allir sem höfðu áhuga á stærðfræði mætt í þessa tíma. Áhugi hennar óx og leiddi hana alla leið í Stanford háskóla, þar sem hún var í stærðfræðinámi þegar viðtalið var tekið.
Ég bjó sjálf í Bandaríkjunum í nokkur ár og tók eftir því að algengt var að nemendur færu á stærðfræðinámskeið í sumarfríinu. Nokkrar vinkonur mínar höfðu börnin sín í slíkum námskeiðum. Helsta ástæðan var sú að foreldrarnir töldu stærðfræði skipta miklu máli í námi og vildu nýta sumarið í frekari þjálfun.
Þessi menning er ekki algeng á Íslandi. Í Bandaríkjunum er ríkari keppnismenning, sem gerir það að verkum að nemendur sem hafa áhuga á stærðfræði fá tækifæri til að rækta hann. Afleiðingin er sú að þessir nemendur ná að þróa afburðahæfni í stærðfræði.
Samkvæmt PISA-könnuninni frá 2022 bjuggu einungis 5% nemenda á Íslandi yfir afburðahæfni í stærðfræðilæsi. Til samanburðar bjuggu 8% nemenda á hinum Norðurlöndunum og 9% nemenda í OECD-ríkjunum yfir sömu hæfni. Árið 2003 sýndu 15% íslenskra nemenda afburðahæfni í stærðfræðilæsi en árið 2012 var hlutfallið komið niður í 11%.
Mér finnst þetta áhyggjuefni, en kannski ekki óvænt, því lítið er gert til að gefa nemendum kost á að þjálfa upp afburðahæfni í stærðfræðilæsi. Ég tel að tvær ástæður gætu skýrt þetta mikla fall á síðustu árum.
Fyrsta atriðið sem ég vil nefna er að síðan bókstafaeinkunnir voru teknar upp hefur verið lögð meiri áhersla á meðalmennsku í stærðfræði. Markmið flestra skóla virðist vera að sem flestir nemendur útskrifist með einkunnina B, en allt umfram það er ekki metið sérstaklega.
Annað atriði er niðurfelling samræmdu prófanna. Samræmdu prófin voru frábært tæki til að hvetja nemendur til að nálgast stærðfræði með hagnýtum hætti, enda var stór hluti þeirra orðadæmi – sem er einmitt kjarninn í stærðfræðilæsi.
Ég myndi vilja sjá íslenska grunnskóla veita nemendum meiri möguleika til að uppgötva stærðfræðiáhuga sinn, takast á við krefjandi verkefni og fá viðurkenningu fyrir árangur sinn.
Þótt kennarar og foreldrar geti ekki breytt menntakerfinu, geta þeir þó stuðlað að auknum stærðfræðiáhuga meðal nemenda og þar með bætt stærðfræðilæsi þeirra – án aðkomu stjórnvalda.
Árlega er haldin Pangea-stærðfræðikeppni fyrir nemendur í 8. og 9. bekk grunnskóla. Markmið keppninnar er að vekja áhuga nemenda á stærðfræði. Ég myndi vilja sjá alla skóla hvetja alla nemendur sína í þessum bekkjum til að taka þátt og fyrir keppnina gætu nemendur fengið tækifæri til að æfa sig sérstaklega.
Það sem er skemmtilegt við Pangea-stærðfræðikeppnina er að hún stendur öllum nemendum í 8. og 9. bekk til boða. Margir hafa í kjölfarið fengið áhuga á stærðfræði og áttað sig á því að þeir gætu náð góðum árangri í greininni – þrátt fyrir að hafa áður átt erfitt með hana í skólanum.
Pangea-stærðfræðikeppnin er eina stærðfræðikeppnin á Íslandi, sem ég veit um, sem er opin öllum nemendum í 8. og 9. bekk. Þessi keppni er aðgengileg fyrir nemendur um allt land, þar sem verkefni fyrstu umferðarinnar eru lögð fyrir innan hvers skóla. Til eru aðrar stærðfræðikeppnir, eins og stærðfræðikeppni grunnskólanna og sérstök keppni fyrir grunnskólanemendur í Hafnarfirði, en í þeim geta aðeins útvaldir nemendur tekið þátt. Einnig er til stærðfræðikeppni fyrir nemendur í grunnskólum á Vesturlandi.