fbpx

Æi, þetta er bara of erfitt fyrir þig

þegar Friends þættirnir komu fyrst á Netflix þá var dóttir mín að horfa á þá í fyrsta skipti og ég horfði á einn og einn þátt með henni. Það er einn þáttur sem situr fast í mér og ég hugsa oft til. En það er þátturinn þar sem Monica er að hitta milljarðamæringinn Pete (Season 3, þáttur 24). 

Pete var búinn að ná gríðarlega miklum árangri í viðskiptalífinu og langaði að setja sér markmið á “líkamlega” sviðinu. Hann ætlaði að verða “the Ultimate Fighting Champion”.

Pete kafnaði næstum í fyrsta bardaganum og í þeim næsta slasaðist hann mikið og þá hélt Monica að hann myndi gefast upp og vera tilbúinn að hætta. Þetta væri greinilega ALLT of erfitt fyrir hann og hann myndi aldrei ná þessu markmiði.

En fyrir Pete var alveg út í hött að gefast upp núna! Gjörsamlega fráleitt! Hann var ekki búinn að ná markmiðinu! Hann vissi fyrirfram að þetta yrði erfitt og það tæki margar æfingar og bardaga að ná þessu markmiði.
​​
Pete var án efa með vaxandi hugarfar. Hann vissi að hann gæti látið mjög stóran draum rætast ef hann myndi leggja hart á sig. Það var enginn efi í hans huga. Monica aftur á móti hugsaði strax að fyrst honum gengi svona illa til að byrja með að þá væri bara best að hætta, því að hann myndi örugglega ekki ná þessu markmiði.

Það er eitt að vera fullorðinn einstaklingur sem veit að hann getur allt sem hann ætlar sér og annað að vera barn eða unglingur sem trúir því sem aðrir segja. Þess vegna skiptir máli fyrir börn og unglinga að hafa fólk í kringum sig sem trúir á það og veit að það getur allt sem það ætlar sér og hvetur það áfram.

Ég veit um marga foreldra sem vorkenna börnum sínum þegar illa gengur. En það er einmitt frábært tækifæri til að gera börnum grein fyrir að þau geti bætt sig og orðið betri – ef þau vilja. Ég fór á áhugaverðan fyrirlestur um daginn með Bjarna Fritzsyni og þar tók hann dæmi frá yngsta stráknum sínum sem hafði ekki komist í fótboltaliðið sem vinur hans var í. Hann grét mikið og var virkilega ósáttur. Pabbi hans sagði honum að hann þyrfti bara að æfa sig meira (að sparka með vinstri) og þá væru meiri líkur á að hann yrði valinn næst. Síðan bjuggu þeir til plan og hann æfði sig markvisst daglega í nokkurn tíma og sagði síðan við pabba sinn “ég er orðinn virkilega góður með vinstri” og þá áttaði hann sig á því að hann þyrfti bara að æfa sig meira til að verða betri.

Ert þú með einhverja reynslusögu af þínu barni eða unglingi þar sem hann áttaði sig á að hann gæti ótrúlegustu hluti ef hann bara legði mikið á sig og æfði sig? Ef svo er, þá væri virkilega gaman ef þú nenntir að taka frá tíma til að senda mér þá sögu.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
https://staerdfraedi.is/


Posted

in

by

Tags: