fbpx

Að venja sig að læra?

Fyrir tveimur vikum skrifaði ég um hvað það skiptir miklu máli að unglingar geri sér grein fyrir hvað þarf að gera, til að að setja sér háleit markmið í stærðfræði. Ef markmiðið er t.d. að fá B í lok skólaárs, þá þýðir ekki að rífa sig í gang rétt fyrir skólalok, heldur þarf að vinna markvisst jafnt og þétt yfir allt skólaárið.

En mig langar aðeins að tala betur um hvernig unglingurinn þinn getur unnið jafnt og þétt yfir skólaárið. Það felst í því að byggja upp nýjan vana, sem þarf ekki að vera erfitt ef við nýtum okkur þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á því hvernig sé gott að byggja upp nýjan vana.

Að venja sig að læra

Ég hef lesið fjöldan allan bókum sem tengjast því að byggja upp vana og hef t.d. skrifað um sniðug ráð sem fengin voru úr bókinni Tiny Habits. En í dag ætla ég að styðjast við ráð sem eru úr metsölubókinni Atomic Habits en þar bendir höfundur á að til þess að innleiðing á nýjum vana gangi sem best þá eru fjögur lögmál sem hægt er að nýta sér og tengjast öll rannsóknum á hvað virkar best til þess að breyta um hegðun.

Þessi fjögur lögmál eru:

  1. Gerðu það augljóst
  2. Gerðu það aðlaðandi
  3. Gerðu það auðvelt
  4. Gerðu það ánægjulegt

Ef markmiðið er t.d. að fá góða einkunn í lok skólaárs, þá er mikilvægt að hugsa hvað þarf að gera til þess að ná því markmiði. Ef niðurstaðan er sú að innleiða þarf vanann að læra daglega, virka daga, allt skólaárið, þá er gott að skoða þessi fjögur lögmál og nýta sem flest þeirra til að auðvelda þessa innleiðingu.

Hérna eru nokkrar hugmyndir frá mér hvernig er hægt að nýta þessi fjögur lögmál til þess að innleiða vanann að læra heima daglega, virka daga.

Gerðu það augljóst
Unglingurinn þinn getur búið til plan þar sem hann ákveður hvar og hvenær hann ætlar að taka frá tíma til að læra. Þetta getur verið breytilegt eftir vikum og því gott að gera þessi plön vikulega. T.d. gæti planið hjá þínum unglingi í næstu viku verið:
Ég ætla að læra strax eftir skóla á mánudag, miðvikudag og föstudag; og eftir æfingu þriðjudag og fimmtudag.

Það eitt að ákveða hvar og hvenær unglingurinn þinn ætlar að læra eykur líkurnar á því að hann fylgi planinu eftir. Á námskeiðunum hjá mér, þá bið ég nemendur alltaf að búa til plan fyrir hverja viku og senda mér.

Gerðu það aðlaðandi
Til að hafa það sem mest aðlaðandi fyrir unglinginn, þá er gott að hann hugsi um að æfa sig að setjast niður til að læra, en hann þarf ekki að upplifa þá pressu að þurfa að ná að læra rosalega mikið eða komast yfir ákveðið mikið efni. Hann þarf fyrst og fremst að æfa sig í að setjast niður til að læra. (Síminn hans þarf að sjálfsögðu að vera í öðru herbergi t.d. er gott að geyma hann í einhverri skúffu í eldhúsinu).

Gerðu það auðvelt
Það er mjög gott og auðveldar verkið að byrja smátt. T.d. byrja að læra í 10 eða jafnvel 5 mínútur á dag. Þegar það er orðið að vana að setjast niður daglega í stuttan tíma, á þeim tíma og stað sem búið var að ákveða, þá er hægt að auka við tímann jafnt og þétt.

Gerðu það ánægjulegt
Hægt er að gera þennan vana myndrænan, t.d. prenta út einhvers konar “habit tracker” af netinu og merkja inn á hvort hann náði að fylgja planinu fyrir daginn eða ekki. Þegar hann nær að læra, þá getur hann strax eftir að hafa lært, merkt inn á blaðið að hann sé búinn að læra skv. planinu í dag. Ef hann er alveg á fyrstu dögunum, þá getur hann merkt inn á að hafa lært, þrátt fyrir að hann hafi bara sest niður og starað á bókina í 5 mínútur. Það er mjög gott ef þetta plan getur verið sýnilegt öðrum í fjölskyldunni, t.d. með því að hengja á ísskápinn.

Síðan er hægt að gera þetta enn ánægjulegra með því að unglingurinn fái einhver verðlaun í lok hverrar viku sem hann náði markmiði sínu.

Ef unglingurinn þinn hefur ekki það markmið að bæta sig í lok skóláárs, þá er hægt að yfirfæra þetta yfir á öll önnur markmið. Þegar markmiðið er “fundið”, þá þarf að skoða hvaða vana þarf að innleiða til þess að auka líkurnar á því að markmiðið náist og síðan styðjast við þessi fjögur lögmál til að auðvelda innleiðingu á þessum nýja vana.

Ef þú átt ungling sem langar til að taka stærðfræðina föstum tökum, byggja upp góðan grunn og góðan vana ásamt því að læra að tileinka sér stærðfræði viðhorf, skráðu þig þá á láta vita listann minn til að fá tölvupóst þegar ég opna fyrir næsta námskeið.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: