Skólakerfið á Íslandi, er að mínu mati, rekið með þá hugsjón að mennta sem flesta nemendur fyrir sem minnstan pening. Það er meðal annars ástæðan fyrir að nemendur með greiningar fá ekki þá aðstoð sem þeir þurfa í grunnskólum. Stytting framhaldsskólans og svo væntanleg sameining framhaldsskólanna eru einnig augljós merki um sömu hugsjón.
En hver er afleiðing þess að vera alltaf að hugsa um það að spara í menntakerfinu?
Ég hlustaði á mjög áhugavert viðtal í Menntavarpinu, sem kom út síðasta föstudag (19. apríl), þar sem Ingvi Hrannar tók viðtal við Gunnlaug Magnússon, sem er lektor og dósent við Háskólann í Uppsölum í Svíþjóð. Gunnlaugur þekkir vel til menntamála í Svíþjóð þar sem rannsóknir hans hafa einmitt verið í tengslum við samanburðarfræði í menntamálum.
Í þessu viðtali kom mjög margt áhugavert fram eins og að allir nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum fá frían mat og eina heita máltíð á dag. En það sem kom mér mest á óvart í þessu viðtali er að það er að verða mikill aðskilnaður í skólakerfinu í Svíþjóð í tengslum við einkavæðingu skólanna. Sem mér finnst tengjast þessari íslensku hugsjón að spara í menntakerfinu.
Flestir einkareknu skólarnir í Svíþjóð eru hagnaðardrifnir. Þeir skólar hafa ekki leyfi til þess að rukka skólagjöld, en fá sömu greiðslu fyrir hvern nemanda og skólarnir sem reknir eru af sveitarfélögunum.
Þessir hagnaðardrifnu einkareknu skólar eru þá fyrst og fremst að hugsa um að útskrifa sem flesta nemendur (á grunnskólastigi) fyrir sem minnstan pening. Þær afleiðingar sem það hefur haft er meðal annars:
Skólarnir laða til sín nemendur sem hafa ekki sérþarfir (t.d. eru ekki með neinar greiningar). Þetta er mjög auðvelt að gera án þess að það sé augljóslega verið að útiloka ákveðna nemendahópa.
Nemendahóparnir eru stærri í þessum skólum, enda frábær sparnaðarleið og auðveldara ef hópurinn er einsleitur.
Færri kennarar eru menntaðir kennarar, sem er mun ódýrara.
Mikil verðbólga er í einkunnum úr þessum skólum. Einkunna-verðbólgan er mjög sýnileg þegar einkunnir úr samræmdum prófum í 3., 6. og 9. bekk eru bornar saman við skóla einkunnirnar.
Sem sagt, einkareknu skólarnir laða til sín nemendur sem auðvelt er að útskrifa og gefa þeim góðan einkunn svo þeir komist í góðan framhaldsskóla. En reynslan hefur síðan sýnt að nemendur sem koma úr þessum einkareknu skólum eiga auðveldara með að komast inn í bestu skólana, en gengur síðan verr þegar þangað er komið.
Eins og ég sagði í upphafi, þá finnst mér bæði ríki og sveitarfélögin hér á Íslandi, hugsa um að fá sem mest fyrir peninginn og reyna að hagræða. Það hefur leitt til þess, eins og með hagnaðardrifnu einkareknu skólana í Svíþjóð, að öll gæði og þjónusta við nemendur hefur minnkað: nemendahóparnir eru allt of stórir, kennslan miðast við ákveðinn nemendahóp og aðrir nemendur sem ráða ekki við þá kennslu fá litla sem enga þjónustu, menntuðum kennurum er að fækka og verðbólgu-einkunnir í grunnskólunum (vegna pressu frá foreldrum og án aðhalds frá samræmdum prófum) eru að skila nemendum illa undirbúnum í framhaldsskólana.
Hvað er til ráða? Fyrsta skrefið er að taka ákvörðun um að líta á menntakerfið sem fjárfestingu til framtíðar, en ekki sem sparnað til skamms tíma. Síðustu vikur hefur verið mikið rætt um skólaforðun ákveðins nemendahóps og ótrúlegt að við séum ekki að mæta þörfum þessara nemenda í okkar skólakerfi! Við þurfum að geta mætt þörfum allra nemenda. Allir nemendur eiga skilið að geta stundað grunnskólanám og það mun skila sér til ríkisins til langs tíma.