En ég er núna að lesa bók sem er hluti af námskeiði sem ég er að taka á Menntavísindasviði í Háskóla Íslands, þar kemur fram að nemendur séu ekki að læra nema þeir séu að hugsa og nemendur eru ekki að hugsa ef þeim er sagt nákvæmlega hvað þeir eiga að gera.
Ég er sammála því að nemendur eru ekki að hugsa mikið ef þeim er sagt nákvæmlega hvað þeir eiga að gera, en ég held þó að nemendur geti lært töluvert með því að einhver annar sýni þeim hvað þeir eigi að gera. En vissulega væri betra ef nemendur fengju tækifæri til þess að hugsa meira í stærðfræðitímum, það er líka frábær leið til að festa betur í minni það sem þeir eru að læra..
Samkvæmt athugunum sem gerðar hafa verið erlendis, þá eru ekki margir kennarar sem gefa nemendum tækifæri á að hugsa. Það er margt sem getur skýrt það, meðal annars sú staðreynd að kennarar sem eru almennt taldir góðir (nemendur þeirra ná góðum árangri á prófum og spjara sig vel í framhaldsnámi), eru að keyra markvisst í gegnum námsefnið með því að sýna nemendum jafnóðum hvað þeir þurfa að gera og láta svo nemendur æfa sig í að ná tökum á því efni.
Námsefni sem nemendur eiga að vinna með, getur haft mikil áhrif á það hvort nemendur þurfa að hugsa, eða hvort það dugar að mata þá af upplýsingum. Ég man eftir tímabili sem ég var að kenna stærðfræði í grunnskóla (2008), þar sem ég get sannarlega sagt að nemendur hafi verið að hugsa. Það var þegar ég var að undirbúa nemendur í 10. bekk undir samræmt próf í stærðfræði. Orðadæmin í þeim prófum voru nefnilega þannig að í flestum tilfellum þurftu nemendur að hugsa mjög mikið. Fyrst þurftu þeir að hugsa og skilja hvað væri verið að spyrja um og svo hófst vinnan við að finna út hvernig hægt væri að leysa dæmið. Þá var ekki í boði að herma eftir dæminu á undan, kíkja í kennslubókina eða nota aðferðina sem kennarinn kenndi, nemendur höfðu ekkert annað val en að hugsa!
Kennslubækur í dag eru yfirleitt settar upp með þeim hætti að nemendur læra ákveðna aðferð, síðan þjálfa þeir sig í að ná tökum á aðferðinni og fá aðstoð frá kennaranum ef með þarf. Kennarabækur sem fylgja þeim kennslubókum gera ráð fyrir að efnið sé lagt fyrir með þessum hætti, en ekki fram með þeim hætti að nemendur þurfi að hugsa mikið.
Við getum ekki stjórnað hvaða kennsluaðferð eða hvaða kennslugögn er stuðst við í skólanum eða hvort unglingurinn þinn fái tækifæri til þess að hugsa mikið í stærðfræði. En það er samt margt sem er hægt að gera til að hugsa meira og ég ætla að nefna tvennt sem er einfalt og virkar mjög vel.
Fyrra atriðið er, að unglingurinn þinn getur lært að spyrja góðra spurninga í tímum. T.d. ef hann fær villu og skilur ekki hvers vegna. Þá er ekki gott að biðja kennarann um sýna sér hvernig kennarinn reiknar dæmið, því þá mun kennarinn sýna honum hvernig hann myndi reikna dæmið, sem þarf alls ekki að vera með sama hætti og unglingurinn þinn ætlaði að gera. Mjög góð stærðfræðispurning er aftur á móti, að spyrja kennarann, “getur þú séð hvað ég er að gera rangt?” og biðja kennarann að rýna í útreikningana og finna út hvað hann þarf að skoða. Ég hef skrifað nánar um hvernig er gott að spyrja kennara í tímum, þú getur lesið nánar um það hér.
Seinna atriðið, er að unglingurinn þinn getur lært heima með það viðhorf að ætla að kenna einhverjum öðrum efnið sem hann er að fara yfir. Þá þarf hann að hugsa efnið með öðrum hætti, til að geta útskýrt efnið án þess að hafa kennslubókina til stuðnings, í leiðinni lærir hann einnig að nota orðaforðann í stærðfræði og skilur efnið enn betur.