fbpx

Tvö atriði til að bæta einbeitingu

Ég hef áður talað um að 1 klukkutími sé ekki sama og 1 klukkutími í merkingunni að klukkutími fyrir hádegi jafnast ekki á við klukkutíma seint um kvöld t.d. þegar kemur að heimalærdómi

Það er því mikilvægt að unglingurinn þinn átti sig á því þegar það kemur að því að læra heima eða læra undir próf, þá getur verið árangursríkara að byrja ekki of seint að læra.

Hvernig getum við bætt einbeitingu?
Það að standa og sitja á víxl getur hjálpað til við að halda einbeitingu

En í dag langar mig að minnast á tvennt sem unglingurinn þinn getur gert til að halda betri einbeitingu við lærdóminn.

Standa og sitja á víxl
Sumir kjósa að standa við borð og vinna meðan aðrir vilja eingöngu sitja. Rannsóknir sýna að það er gott að víxla á milli, þar sem það hefur góð áhrif á athygli og einbeitingu. Það eru ekki margir skólar sem bjóða upp á upphækkanleg borð og fæstir unglingar eru með hækkanleg borð heima hjá sér, en það er hægt að útfæra standandi borð með því að setja koll eða kassa ofan á borð.

Ákjósanlegast er að sitja í 10-30 mínútur, standa svo í 10-30 mínútur og setjast svo aftur – á víxl. Það að skipta svona á milli þess að standa og sitja hefur ekki bara jákvæð áhrif á einbeitinguna heldur minnkar það líkur á háls-, herða- og bakverkjum.

Horfa beint áfram (aðeins upp)

Rannsóknir sýna að það eru bein tengsl milli þess hvert við horfum og einbeitingar. Þegar við horfum niður, þá virkjast taugar sem eru tengdar slökun og svefni. Það er því ákjósanlegt að staðsetja tölvuskjá eða efni sem unglingurinn þinn er að lesa, rétt fyrir ofan augnlínu þegar hann horfir beint áfram.

Þessi útfærsla er kannski auðveldust þegar kemur að skjá, þar sem auðvelt er að hækka skjá eða spjaldtölvu svo hún sé rétt fyrir ofan augnlínu (þegar horft er áfram). En það er hægt að útfæra þetta fyrir bækur eða annað prentefni með því að nota standa sem eru hugsaðir fyrir matreiðslubækur.

Sem sagt, setja t.d. stærðfræðibókina á standinn og fara vel yfir sýnidæmin með því að horfa beint áfram á bókina í uppréttri stöðu. Síðan er auðvitað eðlilegt að vinna dæmin í vinnubók með því að horfa niður á borðið.

Ef unglingurinn þinn vill bæta sig sem námsmann, þá er um að gera að prófa sig áfram. Ef það eru einhverjar ákveðnar leiðir eða aðferðir sem verða til þess að einbeitingin verður betri, þá er um að gera að nýta sér það.

Hefur unglingurinn þinn prófað að vinna við standandi “borð” heimafyrir? Ef þið getið í sameiningu fundið útfærslu til að hækka borðið, þá er spennandi að sjá hvort það henti þínum unglingi að víxla á milli.

Einnig sakar ekki að sjá hvort að það hjálpi til við að fara yfir efni á pappírsformi að horfa beint áfram, þannig að efni sem hann er að lesa sé rétt fyrir ofan augnlínu.


Posted

in

by

Tags: