Nemendur í grunnskólum á Íslandi skora lágt í rökhugsun á PISA og mun lægra en nemendur á hinum Norðurlöndunum. En hver skyldi vera helsta ástæða þess?
Það er margt sem getur legið að baki, en stór ástæða þess er líklega sú að íslenskir nemendur eru ekki vanir að taka munnleg próf, þar sem þeir þurfa að færa rök fyrir sínu máli í stærðfræði, eins og nemendur á hinum Norðurlöndunum.
Það væri líka ákjósanlegt að meiri tíma væri varið í umræður um stærðfræði á Íslandi, í stað þess að læra aðferðir og reikna. En þegar nemendur eru um 30 í hverjum bekk, þá er nokkuð augljóst að það er ekki hægt að stýra umræðum þannig að allir nemendur séu að tjá sig og æfa sig í að tala upphátt um stærðfræði.
Þrátt fyrir að það sé ekki tími til að hafa djúpar umræður um stærðfræði í stærðfræðitímum, þannig að nemendur nái að æfa sig í rökhugsun um stærðfræði, þá myndi það eitt að hafa munnleg próf breyta miklu.
Ef munnleg próf eru hluti af námsmatinu í stærðfræði, þá munu nemendur þurfa að undirbúa sig undir þessi próf, sem verður til þess að þeir munu allavega ekki versna í rökhugsun! Ég sé fyrir mér að ef hver einasti nemandi þurfi að taka munnlegt próf í stærðfræði á hverri önn, þá verður sá nemandi betri og betri – og orðinn ansi góður þegar hann kemur í 10. bekk.
En það er óþarfi að bíða eftir að munnleg próf verði hluti af námsmatinu. Ef nemendur vilja æfa sig á eigin spýtur í rökhugsun, þá er einkum þrennt, sem mér dettur í hug, sem þeir geta auðveldlega gert til að þjálfa sig í því:
1. Þeir geta kennt öðrum stærðfræði, hvort sem það er sessunautur í skólanum eða jafnvel yngra systkini heima. Ég hef oft sagt, að besta leiðin til að ná virkilega góðum tökum á stærðfræði sé að kenna öðrum og um leið eru nemendur að dýpka skilning sinn og þjálfa sig í rökhugsun.
2. Þeir geta æft sig að tala upphátt um stærðfræði þegar þeir eru að læra heima í stærðfræði. Þeir geta þá jafnvel ímyndað sé að þeir séu að útskýra fyrir einhverjum öðrum hvað þeir eru að læra eða hvað þeir eru að gera.
3. Þeir geta spurt stærðfræðikennarann góðra spurninga, eins og “kennari, getur þú séð hvað ég er að gera rangt?” og svo fara yfir með kennaranum hvað hann er búinn að vera að gera – æfa sig í því að fara yfir útreikninga og hugsanir upphátt.
Öll þessi atriði að ofan, felast í því að tala upphátt um stærðfræði. Það er ótrúlega mikilvægt, því að um leið og við tölum upphátt um það sem við vorum að hugsa eða gera, þá föttum við oft hvers vegna við gerðum einhverja villu eða við fáum frábærar hugmyndir til að vinna með áfram. Það er eins og heilinn opnist frekar við það að tala upphátt, meira en að hugsa bara í hljóði.
Ef þú vilt að unglingurinn þinn nái betri tökum á stærðfræði, þá getur þú hvatt hann til þess að tala meira upphátt um stærðfræði. Það verður ekki bara til þess að styrkja rökhugsun í stærðfræði, heldur eykur það orðaforða og skilning.