Það hefur mikið verið talað um einkunnaverðbólgu í grunnskólum. Í nýlegu viðtali við Jón Pétur, aðstoðarskólastjóra Réttarholtsskóla, kemur fram að mun fleiri nemendur séu að útskrifast með B úr 10. bekk, heldur en niðurstöður PISA gefa til kynna að ættu að gera. Einnig hafa viðtöl við framhaldsskólakennara á vegum STEM-hópsins bent til þess að nemendur úr grunnskóla séu að koma verr undirbúnir í framhaldsskólana heldur en áður.
En hvað veldur þessari einkunnaverðbólgu? Af hverju eru fleiri að fá B en ættu að vera að fá B?
Kannski eru einhver dæmi um að nemendur sem eru alveg mitt á milli þess að fá C+ og B endi með B, en ég held að skýringin sé ekki sú að nemendur sem ættu ekki að fá B, séu að fá B gefins.
Ég tel að skýringin geti legið í því að nemendur séu að fá B þegar hæfni þeirra er metin, en síðan gleymist þessi hæfni fljótt. Því langaði mér að velta fyrir mér ástæðum þess að nemendur séu að gleyma því sem þeir læra.
Í fyrsta lagi held ég að nemendur eigi erfiðara með að einbeita sér en áður. Með tilkomu snjallsíma þá er stanslaust áreiti og eflaust fáir unglingar sem geta setið í 40-60 mínútur í kennslustund án þess að verða fyrir truflunum frá þessum tækjum. Rannsóknir sýna að það eitt að hafa símann í vasanum, jafnvel þó nemandinn fái engar tilkynningar, er mikil truflun á einbeitingu. Það sem þeir læra fer því síður í langtímaminnið, því þeir hafa einfaldlega ekki úthald í að tengja þetta nýja efni við efni í langtímaminninu.
Í öðru lagi, þá gæti þurft fjölbreyttari kennsluaðferðir til að nemendur læri efni í dag. Efni sem er einungis beint upp úr stærðfræði bókum er líklega ekki nóg. Nemendur þurfa að fá tækifæri til þess að ræða við aðra um efnið (kenna öðrum), tengja efnið meira við daglegt líf og sjá meiri tilgang í því að læra efnið.
Í þriðja og síðasta lagi, þá tel ég að sú þróun að flestir grunnskólar séu að færa sig nánast eingöngu yfir í símat sé ekki nógu gott. Eins og heilinn virkar, þá getum við lært nýtt efni hratt og vel og gengið vel í prófi úr því efni. En á sama tíma er sú þekking fljót að fjara út. Nemendur sem læra efni einu sinni, þurfa að fá smá hvíld frá því efni en þurfa síðan seinna að fá tækifæri á að rifja efnið upp til að festa það enn betur í minni.
Eins og ég sagði, þá eru þetta mínar eigin vangaveltur um einkunnaverðbólguna. Ef samræmd próf væru í gangi, þá gætum við betur metið stöðu nemenda og þá væri jafnvel ekki þessi einkunnaverðbólga því nemendum gæfist kostur á að rifja efni upp og festa í minni efnið sem þeir eru að læra fyrir þau próf.