Um daginn heyrði ég einn pabba segja að strákurinn sinn og félagar hans standa á þeirri skoðun að einkunnir skipti engu máli fyrr en í 10. bekk. Það sé því alveg óþarfi að læra og leggja mikið á sig í 8. og 9. bekk – en svo setja bara allt á fullt í 10. bekk.
Eins og flestir vita, þá er stærðfræði þannig fag að það byggir á ákveðnum grunni sem bætist síðan ofan á. Það er því ansi erfitt að ætla að taka sig á í 10. bekk ef unglingurinn hefur ekki sinnt náminu í 8. og 9. bekk af neinu ráði.
Núna er ég ekki að segja að þetta sé almennt eins og unglingar hugsa, en ég velti samt fyrir mér hvers vegna einhverjir unglingar hugsa svona. Líklega er það vegna þess að aðalnámskrá grunnskólanna skilgreinir hæfniviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Sem sagt, þegar nemendur byrja í 8. bekk þá liggja fyrir hæfniviðmið sem þeir þurfa að hafa náð við lok 10. bekkjar.
Það er síðan í höndum hvers skóla að útbúa skólanámskrá þar sem þeir útfæra sín viðmið innan hvers stigs (t.d. innan unglingastigs). Ég veit um marga skóla sem útfæra þetta þannig að nemandi í 8. bekk sér strax hæfniviðmiðið við lok 10. bekkjar og þess vegna er ekkert óeðlilegt að nemandi hafi ekki náð því viðmiði við lok 8. bekkjar. Fyrir þá sem þekkja vel til er þetta kannski ekki svo skrítið, en fyrir foreldra og nemendur virkar þessi framsetning óljós og óskýr. Nemendur og foreldrar vita oft ekki við lok 9. bekkjar hvort að unglingurinn þeirra sé í frábærum málum námslega séð, eða hvort hann þurfi að taka sig verulega á.
Að mínu mati þarf að gera stöðu nemenda miklu skýrari. Þegar ég spyr foreldra nemenda á námskeiðunum hjá mér hvernig unglingurinn þeirra standi námslega séð í stærðfræði og hvaða einkunnir hann sé að fá í stærðfræði, þá fæ ég yfirleitt þau svör að þeir hafi ekki hugmynd um það og svo senda þér mér mörg skjáskot úr Mentor af stöðu nemandans í stærðfræði sem þeir botna ekkert í.
Til þess að nemendur sjái tilgang með náminu, þá er nauðsynlegt að þeir hafi skýr markmið sem þeir skilja og að það sé einnig mjög sýnilegt þegar nemendur bæta sig. Þá er nauðsynlegt að einungis sé horft á eitt ár í einu – því þannig ætti “B nemandi” að vera með allt B við lok 8. bekkjar miðað við þau viðmið sem skólinn setur við lok 8. bekkjar.