fbpx

Ef markmiðið hans er B, hvað er þá mitt markmið?

Átt þú ungling sem stendur höllum fæti í stærðfræði og langar til þess að ná góðum tökum á stærðfræði? Ef svo er, hvaða merkingu setur hann í að ná góðum tökum á stærðfræði og hvers vegna langar hann að ná góðum tökum á stærðfræði?

Yfirleitt langar nemanda til að ná tökum á stærðfræði, af því að hann langar að fá B (eða hærra) í einkunn, til að ná grunnskóla stærðfræðinni við lok 10. bekkjar.

markmið nemanda og markmið mitt

En þegar nemandi hefur tekið ákvörðun um að langa að ná góðum tökum á stærðfræði, þá er það markmið mitt að kenna þeim hvernig á að byggja upp góðan grunn í stærðfræði, hvernig á að nálgast stærðfræðiverkefni, kenna þeim hvernig heilinn þeirra virkar og þjálfa þrautseigjuna – svo eitthvað sé nefnt. Markmið mitt er ekki að þeir nái B, en ef nemendur læra að breyta viðhorfi sínu gagnvart stærðfræði, þá mun það leiða til þess að skilningurinn verður mjög góður, þeir ná betri tökum á stærðfræði, fá aukið sjálfstraust og það mun skila sér í góðri einkunn til frambúðar.

Þegar námið fer ekki lengur að snúast um einkunnina, heldur áhuga, skilning og að bæta sig, þá er markmiðinu mínu náð. Ég sé þetta svo augljóslega þegar ég kenni fyrri fyrsta þreps áfangann í kennslustofu, en sá áfangi er fyrir nemendur sem voru með stjörnumerkta einkunn í stærðfræði eða fengu D í stærðfræði í 10. bekk. Í þessum áfanga þá fara nemendur yfir ákveðið efni, taka síðan æfingapróf þar til þeir ná að staðfesta fyrir sjálfum sér að þeir kunni efni upp á 10 og þá taka þeir alvöru próf.

Ef nemendur fá síðan ekki 10 á alvöru prófinu, þá verða þeir svo hissa og áhugasamir um hvað þeir gerðu rangt, því þeir voru vissir um að kunna efnið svo vel. Áherslan hjá þessum nemendum er ekki á einkunnina og þeim er alveg sama um einkunnina, en þeir eru svo áhugasamir að skoða og rannsaka hvað þeir gerðu rangt. Þegar nemendur hafa náð að tileinka sér svona vaxandi hugarfar, þar sem námið snýst ekki um einkunn heldur að læra, skilja og bæta sig, þá er markmiði mínu náð, því ég veit að það er það sem á endanum skilar sér í góðu gengi í stærðfræði.


Posted

in

by

Tags: