Við erum alltaf að bera okkur saman við hin Norðurlöndin þegar kemur að menntamálum. Það er mjög gott, en þá er líka mikilvægt að skoða alla þætti en ekki grípa eitthvað eitt í lausu lofti og yfirfæra það á Ísland.
Gott dæmi um það er t.d. stytting framhaldsskólans. Við Íslendingar styttum framhaldsskólann svo hann væri 3 ár eins og í Danmörku og öðrum löndum sem við berum okkur saman við. En ef við teljum vikurnar sem danskir krakkar eru í framhaldsskóla og færum það yfir í íslenskt skóladagatal, þá væru Danir með 4 ára framhaldsskóla. Ég set því mjög stórt spurningarmerki og upphrópunarmerki við hvers vegna það var þá ekki líka tekið inn í myndina við styttingu framhaldsskólans á Íslandi.
Mér finnst samt svo áhugavert að heyra hvað aðrir kennarar í löndunum sem við berum okkur saman við, eru að segja um menntakerfið í þeim löndum. Í nýjasta Menntavarpinu (frá 3. maí), þá ræddi Ingvi Hrannar við Sigríði Ölmu sem kennir í Öldutúnsskóla, en hún hefur rúmlega 20 kennslureynslu í Danmörku á öllum skólastigum.
Í þessu viðtali kom margt áhugavert fram. Til dæmis er mikil áhersla lögð á munnleg próf í grunnskólum í Danmörku. Þá eru fengnir utanaðkomandi prófdómarar til að prófa nemendur. Einnig eru samræmd próf til að tryggja það að allir nemendur séu að læra það sem þeir eiga að læra.
Skólaskylda í Danmörku er frá 7 til 16 ára (nemendur útskrifast á 16. ári), sem samsvarar þá 2. til 10. bekk á Íslandi. Nemendur sem ætla í framhaldsskóla þurfa að ná ákveðinni meðaleinkunn til að komast inn. Ef þeir ná henni ekki, þá eru margir nemendur sem fara í 10. bekk (sem væri þá 11. bekkur í íslenska kerfinu). Það er auka ár til að undirbúa nemendur enn betur undir framhaldsskólann og þá geta þeir hækkað meðaleinkunnina sína. Nemendur geta einnig valið að taka inntökupróf í framhaldsskóla ef meðaleinkunnin í grunnskóla var ekki nógu há.
Sem sagt, það er enginn Dani sem fer í 3 ára framhaldsskólanám til stúdentsprófs, nema hafa náð ákveðinni lágmarks meðaleinkunn úr grunnskóla (eða undirbýr sig sjálfur og tekur inntökupróf í framhaldsskóla).
Ef við skoðum kerfið á Íslandi, þá var framhaldsskólinn styttur í 3 ár á sama tíma og bókstafakerfið var tekið upp í grunnskólunum. Í íslenska bókstafakerfinu er það þannig að ef nemendur ná ekki B í kjarnafögunum (íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku) þá teljast þeir ekki hafa lokið grunnskólaefni í þessum fögum og þurfa að vera eina til tvær annir aukalega í framhaldsskóla.
Þær breytingar sem ég myndi vilja sjá gerast sem fyrst á Íslandi, er að innleiða aftur samræmd próf í grunnskólum og leyfa nemendum að senda þau gögn inn þegar þeir sækja um í framhaldsskólana. Það var nefnilega þannig hér áður fyrr að nemendur sem fengu góða einkunn í samræmdum prófum en lélega skólaeinkunn gátu fengið að fara beint í framhaldsskólaefni í framhaldsskóla.