Ég held að flestir kennarar í grunnskólum landsins, þar sem sími er ekki bannaður í kennslustundum, séu sammála um að símar séu mikil truflun bæði fyrir kennara og nemendur. Það fer mikil orka í það hjá kennurum að biðja nemendur að setja símana niður, sem er einnig truflun fyrir aðra nemendur. Það er líka nokkuð augljóst að nemendur sem eru að nota símann í stærðfræðitímum og bregðast við öllum skilaboðum, ná ekki mikilli einbeitingu.
Í síðustu PISA könnun voru nemendur spurðir tveggja spurninga sem varða upplifun þeirra af truflun af síma eða tölvum í stærðfræðitímum. Ég ætla að skoða þessar tvær spurningar og velta svo fyrir mér hvort við þurfum ekki að fara að marka almenna og samræmda stefnu í símamálum í grunnskólum landsins.
Fyrri spurningin, sem nemendur voru spurðir í PISA könnuninni, var að spyrja nemendur hvort að þeir misstu athyglina í stærðfræðitímum við það að nota (sjálfir) stafræn tæki eða stafrænt efni eins og snjallsíma, vefsíður eða smáforrit.
30% nemenda á Íslandi sögðust missa athyglina í flestum eða öllum stærðfræðitímum vegna tækja eða stafræns efnis. Þetta hlutfall er aðeins hærra en meðaltal OECD ríkjanna, en svipað og Danmörk og Noregur. En Svíþjóð og Finnland eru langt fyrir ofan meðaltalið, þar sem þetta er upplifun 37% nemenda í Svíþjóð og 41% nemenda í Finnlandi.
Seinni spurningin, var að spyrja nemedur hvort að þeir yrðu fyrir truflun frá öðrum nemendum sem nota stafræn tæki eða efni í stærðfræðitímum.
Niðurstaðan var að 28% nemenda verða fyrir truflun í flestum eða öllum stærðfræðitímum frá öðrum nemendum sem eru að nota stafræn tæki eða stafrænt efni. Þetta er töluvert fyrir ofan meðaltalið í OECD ríkjunum en samt svipað og hjá hinum Norðurlöndunum.
Síðan var könnuð fylgni milli gengis í stærðfræðihluta PISA og það að upplifa truflun í flestum eða öllum stærðfræðitímum frá öðrum nemendum. Þegar það var skoðað sást að það var fylgni milli þess að ganga ekki vel á PISA prófinu og upplifa truflun í flestum eða öllum stærðfræðitímum, vegna stafrænna tækja eða efnis frá öðrum nemendum.
Sem sagt, niðurstöður PISA segja okkur að:
Þriðjungur nemenda á Íslandi upplifir að þeir missi athygli í flestum eða öllum tímum vegna síma- eða tölvunotkunar.
Og tæplega 30% nemenda upplifir truflun frá öðrum nemendum sem nota síma eða tölvu í tímum, sem hefur neikvæð áhrif á gengi þeirra í stærðfræði.
Ég spyr því, þarf ekki að skoða þessar niðurstöður og meta hvort þær séu ásættanlegar og skoða hvort að það þurfi að samræma stefnu þegar kemur að símanotkun í grunnskólum landsins?
Ég hef reynslu af því að hafa ungling í grunnskóla þar sem símar voru leyfðir og einnig í öðrum grunnskóla þar sem símar voru bannaðir allan skóladaginn. Ég sem foreldri fannst æðislegt að hafa símalausan skóla. Nemendur þurfa pásu frá áreitinu sem símarnir eru og ef allir sem eru í samskiptum við nemandann vita að þeir hafa ekki tök á að svara skilaboðum á skólatíma, þá er engin pressa að vera snöggur að svara. Svo fannst mér auka bónus í símalausa skólanum að nemendur gátu spilað borðtennis, tekið skák, spilað spil og jafnvel spjallað saman í pásunum.
Hefur þú spurt þinn ungling um truflun í stærðfræðitímum vegna símanotkunar hans eða annarra?