fbpx

Góður námsmaður

Ég var að spjalla við kunningja minn í skólasamfélaginu um daginn og við vorum að ræða um tvo nemendur. Í þessu samtali sagði ég að annar nemandinn (köllum hann nemanda A) væri frábær námsmaður en hinn ekki (köllum hann B). Í framhaldinu sagði ég að nemandi B væri með góðan grunn í stærðfræði.

„Þú meinar nemandi B, er góður námsmaður“ sagði hann þá. Ég svaraði nei, nemandi B er með góð tök á stærðfræði, en er ekki góður námsmaður. Andstætt við nemanda A sem er frábær námsmaður, en vantar allan grunn í stærðfræði.

Þetta hljómar kannski eins og þversögn, en nemandi sem er með góðan grunn í ákveðnu efni og fær jafnvel góðar einkunnir – þarf ekki endilega að vera góður námsmaður og þegar sá nemandi fer síðan í framhaldsskóla, þá mun hann líklega lenda í miklum vandræðum námslega séð.

Aftur á móti mun nemandi sem nær að tileinka sér að vera góður námsmaður í grunnskóla halda áfram að vaxa námslega séð og mun að öllum líkindum blómstra í framhaldsskóla.

En hvað þýðir eiginlega að vera góður námsmaður í t.d. stærðfræði? Einhverjir geta misskilið það fyrir að geta leyst flókin dæmi og hafa góðan grunn í stærðfræði, en það er alls ekki þannig.

Hér eru nokkrir eiginleikar sem að mínu mati einkenna góðan námsmann:

Langar til að læra efnið: Það er erfitt að læra eitthvað efni, ef maður hefur engan áhuga á að læra það. Eins og ég hef alltaf sagt, allir geta orðið góðir í stærðfræði, en nemendum þarf að langa til þess.

Sýnir vinnusemi og þrautseigju: Lykillinn að árangri í stærðfræði og öllu námi er að geta haldið áfram að vinna þegar efnið er erfitt. Þetta er eiginleiki sem er auðvelt að þjálfa!

Þorir að biðja um hjálp: Mörg verkefni, sérstaklega í stærðfræði, eru þess eðlis að við þurfum aðstoð til að komast áfram og skilja efnið. Nemendur þurfa því að vera hugrakkir og biðja um aðstoð þegar þeir eru alveg stopp og komast ekki áfram í efninu.

Tekur ábyrgð á sínu námi: Nemendur verða að finna til ábyrgðar. Það er á þeirra ábyrgð að læra og um leið og þeir fara að kenna öðrum um (t.d. kennaranum eða kennslubókinni) hvers vegna þeir eru ekki að ná tökum á efninu, þá eru þeir að kasta frá sér ábyrgðinni. Ein leið til þess að taka fulla ábyrgð er að læra að spyrja góðra spurninga, en ég hef skrifað um það áður.

Það eru fleiri þættir sem einkenna góðan námsmann, en þetta eru þeir þættir sem mér finnst vega mest.

Það sem er svo frábært, er að það getur tekið suma nemendur aðeins nokkrar mínútur að verða góðir námsmenn. Þetta er nefnilega oft einungis viðhorfsbreyting sem þarf að eiga sér stað.

Það getur tekið tíma að byggja upp góðan grunn í stærðfræði, en ef nemendur læra að tileinka sér það sem skilgreinir góðan námsmann, þá munu þeir byggja upp mjög góðan grunn jafnt og þétt til lengri tíma. Það verður þó að hafa í huga að þetta getur verið mjög mismunandi eftir fögum, t.d. getur nemandi verið góður námsmaður í stærðfræði, en kannski ekki í ensku þar sem áhugi nemenda spilar stóran þátt.

Það er staðreynd að flestir foreldrar hafa ekki hugmynd um það hvort að sinn unglingur sé góður námsmaður (þar sem það er ekki tengt einkunn), því oft er lítil sem engin heimavinna í grunnskóla og þetta er því hegðun sem er einungis sýnileg kennurum í skólastofunni.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is​


Posted

in

by

Tags: