fbpx

Gleðilegt nýtt ár og skák!

Þetta eru búin að vera mikil spila jól hjá minni fjölskyldu. Ég hef kynnst nýjum borðspilum sem ég hef ekki spilað áður og einnig spilað gömul borðspil með nýju ívafi. Ég hef einnig varið töluverðum tíma í að skoða ný spil í Nexus og Spilavinum ásamt því að lesa umsagnir um þessi spil á netinu. En það var einmitt innblástur minn að þessum skrifum í dag.

skák

Eins og gefur að skilja hafa ekki allir sama smekk. Sumum finnst ákveðin borðspil leiðinleg á meðan sama spil getur verið í uppáhaldi hjá öðrum. En þegar ég las umsagnir yfir borðspil sem ég myndi flokka sem flókin borðspil, þá voru einhverjar umsagninar á þá leið að þau væru svo leiðinleg. Ef ég rýndi í þessar neikvæðu umsagnir, þá var svo augljóst að þeir spilarar sem fannst þessi spil leiðinleg var eingöngu af því að þeir þurftu að hugsa mikið – sem þeir höfðu greinilega ekki gert ráð fyrir áður en þeir spiluðu spilið!

Ég lít á skák sem skemmtilegt tveggja manna borðspil. Þeim sem finnst gaman að taka skák, finnst gaman að þurfa að skoða ólíkar leiðir sem þeir geta gert ásamt því að hugsa í framhaldinu hvaða útspil andstæðingurinn gæti gert.

Mér finnst stærðfræði eiga margt sameiginlegt við skemmtileg og krefjandi borðspil eins og skák. Það myndi ekki hvarla að neinum að setjast niður og taka skák, ásamt því að spjalla við næsta mann og vera stanslaust að skoða símann sinn. En samt ,einhvern veginn, er það hugmynd margra um hvernig hægt sé að takast á við krefjandi stærðfræðiverkefni.

Þeim sem finnst stærðfræði leiðinleg, eru oft að misskilja hvað stærðfræði gengur út á og hafa ekki lært hvernig á að nálgast krefjandi og skemmtileg stærðfræðiverkefni. Unglingar eru ansi skarpir og oft þarf bara smá fræðslu til að þeir átti sig á þessu. Ég man svo vel eftir umsögn sem ég fékk frá nemanda þegar ég var að byrja með stærðfræði námskeiðin mín á netinu (árið 2013):

Þú ert fyrsti kennarinn sem hefur kennt mér hvernig á að nálgast stærðfræðidæmi.

Auðvitað þurfum við að kenna nemendum hvernig á að nálgast stærðfræði. T.d. hvað þeir eiga að gera og hugsa þegar þeir setjast niður til að reikna. Þegar unglingar læra hvernig á að nálgast stærðfræði og læra að tileinka sér stærðfræði viðhorf þá verður stærðfræðin allt í einu skemmtileg.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: