fbpx

40% þora ekki að spyrja

Ég var að lesa erlenda grein sem fjallaði um rannsókn sem gerð var á 1000 nemendum, sem sýndi að 40% nemenda þora ekki að viðurkenna að þeir skilji ekki það sem kennarar segja í tímum. Þetta vandamál er algengast í stærðfræðitímum.

þora ekki að spyrja

Helsta ástæðan fyrir því var sögð vera sú að nemendur halda að þeir geti ekki orðið góðir í stærðfræði nema þeir séu rosalega klárir og það að viðurkenna að þeir skilji ekki ætti þá að vera vísbending um að þeir séu ekki nógu klárir.

En þetta er náttúrulega ekki rétt, það fæðist enginn góður í stærðfræði og ef við tileinkum okkur rannsóknar hugarfar og vaxandi hugarfar í stærðfræði, þá gengur það út á að spyrja og þá er enginn spurning asnaleg eða of einföld.

En í þessari grein eru tilmæli til kennara að þeir geti breytt þessu með því að hvetja nemendur til þess að spyrja og þá er gott ef kennarar geta deilt sinni eigin reynslu af því að spyrja. Hver hefur ekki lent í því að hafa ekki vitað hvað kennarinn var að segja, en svo þorði einn hugrakkur nemandi að spyrja og þá kom í ljós að flestir nemendur voru að velta þessari nákvæmlega sömu spurningu fyrir sér?

En þetta er að mínu mati ekki lausnin við þessu vandamáli. Því það algengasta sem ég heyri frá nemendum er að þeir þori ekki lengur að spyrja í tímum, því kennarinn bregst illa við. Þeir fá oft að heyra “ég var að segja þetta áðan” eða “ég er búin að fara yfir þetta upp á töflu”. Svona svör eru alveg eitruð, því að þó svo að nemendandi sé að hlusta, þá skilur hann hann samt sem áður oft ekki hvað kennarinn er að segja.

Ef markmið kennara er að byggja upp hugrekki nemenda við að spyrja og sannfæra nemendur um að enginn spurning sé of einföld eða asnaleg, þá vegur mestu hvernig kennarar bregðast við þegar nemendur spyrja. Besta ráðið er að svara öllum spurningum með orðunum “frábær spurning!” því það er hrós til nemandans og hvetur aðra til að spyrja sem vilja líka fá hrós.

Eitt af því sem ég kenni nemendum á námskeiðunum hjá mér er að læra að byggja upp hugrekki til að spyrja spurninga í stærðfræðitímum. Þrátt fyrir að kennarar eigi að svara öllum spurningum eins og þær séu frábærar, þá er ég með smá trix til að spyrja spurninga sem enginn kennari ætti að vera fúll að svara – jafnvel þó hann sé nýlega búinn að fara í efnið upp á töflu. Ef þú vilt lesa nánar um það, þá hef ég skrifað um það áður hér.

Hvað er annars að frétta? Er eitthvað sem þú vilt deila með mér sem tengist námi eða kennslu í tengslum við þinn ungling?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: