Orðaforði nemenda í grunnskólum var töluvert í umræðunni fyrir nokkrum vikum. Það má segja að það hafi byrjað með viðtali við Þorgrím Þráinsson í Bítinu á Bylgjunni. Í viðtalinu kom fram að hann hefur miklar áhyggjur af vanlíðan og málfærni nemenda og sér mikinn mun á líðan og málfærni nemenda í skólum þar sem farsímanotkun er bönnuð.
Í viðtalinu kom Þorgrímur meðal annars inn á, að hann hafi verið að ræða við fjóra stráka í 10. bekk og hafi spurt þá hvað „orðaforði“ þýddi og þeir höfðu ekki hugmynd um það.
Ég hef lengi lagt áherslu á að nemendur læri að tala upphátt um stærðfræði. Æfi sig að nota stærðfræðileg hugtök og æfi sig í að koma í orð hvað þau skilja ekki og geta lýst í orðum hvað þau eru að vinna með í stærðfræðibókinni.
Það er nefnilega staðreynd að það er erfitt að ná góðum tökum á stærðfræði, ef við æfum okkur ekki í að tala um stærðfræði. Ég hef skrifað um mikilvægi orðaforða í stærðfræði áður, en þetta skólaár hefur komið mér virkilega á óvart…
Í fyrsta skipti eftir áratuga kennslu er ég að lenda í því að nemendur á aldrinum 16-18 ára vita ekki hvað orðið „víxla“ þýðir. Í fyrsta skipti sem nemandi sagði við mig, núna í upphafi skólaárs, „hvað meinaru með að víxla?“ þá hélt ég að þetta væri bara eitthvað einstakt tilvik, en þegar fleiri nemendur spurðu og skildu ekki hvað þetta orð þýddi þá verð ég að segja að ég fór að hafa töluverðar áhyggjur. Þegar ég sýndi með höndunum hvað ég átti við með „að víxla“, þá sögðu sumir „ahh, switch-a“.
Hvers vegna er þetta að gerast núna og svona hratt?
Mitt mat er að nemendur eru alltaf að fara inn í minni og minni heim. Þeir eru að sogast inn í einhverja búbblu sem tengist mikilli notkun samfélagsmiðla og um leið eru samskipti þar sem unglingar tala virkilega saman, við aðra unglinga og fullorðna, að minnka.
Hvað er til ráða?
Við sem foreldrar berum ábyrgð á þessu. Ég vil þó segja að ég er fylgjandi því að farsímar séu bannaðir í grunnskólum. Ég hef átt ungling sem var í skóla sem farsímar voru bannaðir og í frímínútum þá þurftu nemendur að tala saman, en gátu ekki einangrað sig með símann og farið inn í litla heiminn sinn. Margir nemendur spiluðu spil, skák, borðtennis eða bara spjölluðu saman.
Það er svo mikið sem við foreldrar getum gert. Við getum t.d. markvisst talað meira við unglingana okkar. Við getum líka verið fyrirmyndir, með því að sýna þeim að við lesum bækur og hvetja þá til að lesa bækur sem þeir gætu haft áhuga á að lesa. Kannski er til einhver skemmtileg ævisaga um einstakling sem þinn unglingur heldur upp á, svo er hægt að fara á bókasöfnin og sjá hvað er í boði. Það er líka hægt að hlusta á bækur, ef það hentar betur, þó ég mæli með að það sé gert í bland við að lesa texta.
Ef þú ert með einhverjar hugmyndir hvað við sem foreldrar getum gert til að auka orðaforða unglingana okkar, þá máttu endilega senda á mig, með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is