fbpx

Er heimavinna árangursrík

Ég er búin að verja töluverðum tíma (þ.e.a.s. árum) í að velta fyrir mér heimavinnu í skólum. Ég hef farið í marga hringi varðandi þá skoðun. Fyrst var ég mjög fylgjandi heimavinnu í skólum, síðan var ég nánast komin á þá skoðun að það ætti ekki að vera heimavinna en núna er ég aftur komin á þá skoðun að heimavinna sé nauðsynleg. En það skiptir máli hvernig heimavinnan er.

Er heimavinna árangursrík

Fyrir um tveimur árum, voru helstu rökin mín fyrir að það ætti að vera heimavinna í stærðfræði í grunnskólum þau, að þá gætu nemendur og foreldrar eða forráðamenn þeirra, betur gert sér grein fyrir hvar nemendur standa námslega séð. Þar sem það eru engin samræmd próf sem gefa góða vísbendingu um stöðu nemenda og hver skóli er að útfæra ansi huglægt mat á gengi nemenda sem endar oft í mjög mikilli togstreitu þegar komið er að lok 10. bekkjar.

Það sem ég hef minna verið að spá í, en er byrjuð að rannsaka núna, er tegund heimavinnunnar. Rannsókn á vegum PISA hefur nefnilega sýnt að þau lönd sem leggja áherslu á heimanám eru ekki endilega að koma betur út í PISA könnunum. Það er vegna þess að oftast er heimanám í stærðfræði tengt “heilalausum æfingum” (e. mindless practice), þar sem nemendur eru kannski að reikna nánast sömu dæmi aftur og aftur en ekki að velta fyrir sér hvað þeir eru að gera og rannsaka dæmin.

Jo Boaler, prófessor í stærðfræði við Stanford háskólann í Bandaríkjunum er ekki fylgjandi heimavinnu í stærðfræði, nema heimavinnan feli í sér að hugsa til baka hvað nemendur hafa lært, velti fyrir sér þeim áskorunum sem þeir lentu í í stærðfræði tímanum og hvort þeir sjái einhverja tengingu milli verkefnanna sem hægt væri að nýta í daglegu lífi. Þessi tegund af heimavinnu krefst þess að nemendur beiti rannsóknarhugarfari og séu að koma í orð því sem þeir eru að læra og einnig koma í orð hvaða áskoranir þeir eru með.

Núna er ég mjög fylgjandi því að að kennarar setji fyrir heimavinnu í stærðfræði, sem felur í sér að rannsaka og hugsa um hvað nemandinn var að gera í stærðfræðitímanum. En það breytir því ekki að enn er mjög óljóst og huglægt hvernig hverjum nemanda gengur í stærðfræði á Íslandi.

Eina ráðið við því, sem ég sé, er að vera í mjög góðu sambandi við stærðfræðikennarann í skólanum. Þær spurningar sem þú sem foreldri getur spurt er, hvernig er unglingnum mínum að ganga og hvað þarf hann að gera betur eða öðruvísi til að fá örugglega B í einkunn. Þetta er mikil vinna fyrir foreldra og kennara, en nauðsynlegt ef þú vilt halda vel utan um þinn ungling og geta brugðist strax við ef einhverjar vísbendingar eru um að hann þurfi auka stuðning til að ná viðmiðinu (sem er alltaf B í einkunn).

Þitt aðhald og stuðningur við þinn ungling skiptir gríðarlega miklu máli. Rannsóknir (einnig á vegum PISA) sýna að stuðningur og væntingar foreldra til barna sinna hefur mikil áhrif á gengi þeirra í skóla. Þessir nemendur sýna meiri seiglu, hafa meiri innri hvata til að ná árangri og meira sjálfstraust og trú á eigin getu í stærðfræði.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: