Skiptir máli að æfa sig í stærðfræði? Stutta svarið er já, en samt ekki…
Þegar heilinn er að læra eitthvað nýtt og búa til nýjar tengingar, þá þarf hann að fá tækifæri til þess að styrkja þessar tengingar. Það er t.d. hægt að gera með því að æfa sama hlutinn aftur og aftur.
En hættan við það er samt sú að nemendur læra utan að afmarkaða tegund dæma aftur og aftur, en eru ekkert að rannsaka eða velta dæmunum fyrir sér. Það sem er verra, er að nemendur vita oft ekki í hvaða dæmum þeir eiga að nota þessar aðferðir.
Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt nemendur segja: “Af hverju má þetta stundum og stundum ekki….”. Þetta er einmitt vísbending um að nemendur lærðu aðferðir án þess að rannsaka og velta þeim fyrir sér og reiknuðu líklega allt of mörg eins dæmi án þess að þurfa að hugsa. Við það finnst nemendum þeir oft kunna efnið, en svo er alls ekki.
Jo Boaler, sem skilgreindi fyrst hugtakið stærðfræði viðhorf (e. mathematical mindset), gerði rannsókn tengda þessu árið 2002 sem vakti mikla athygli og vann til verðlauna. Rannsóknin var framkvæmd í tveimur skólum á Englandi, þar sem bakgrunnur og geta nemenda var mjög sambærileg.
Nemendur í öðrum skólanum voru látnir læra og æfa sig í aðferðum með því að reikna mikið magn af eins dæmum, á meðan nemendur í hinum skólanum voru látnir rannsaka og velta dæmunum meira fyrir sér og reikna mun færri dæmi.
Eftir þessar ólíku kennsluaðferðir tóku þessir nemendur samræmd próf sem lögð voru fyrir alla nemendur á Englandi. Í stuttu máli fengu nemendurnir, sem voru látnir læra aðferðir og reikna mörg eins dæmi, mun lakari einkunn í samanburði við nemendurna sem voru látnir rannsaka og velta dæmunum fyrir sér.
Lykillinn að árangri í stærðfræði er að kenna nemendum að tileinka sér stærðfræði viðhorf. Þegar verið er að kenna nemendum að reikna mikið magn af eins dæmum og nánast afrita sýnidæmin án lítils skilnings, þá er það algjör andstæðan við það að læra að tileinka sér stærðfræði viðhorf.
Þegar ég var með námskeiðin mín þar sem ég undirbjó nemendur fyrir samræmdu prófin í stærðfræði, þá var svo ótrúlega gaman að sýna nemendum hvernig hægt væri að leysa hvert orðadæmi með ólíkum aðferðum. Í mörgum tilfellum gátu nemendur leyst dæmin án þess að kunna einhverja aðferð. Þeir gátu oft notað sína eigin aðferð til að leysa dæmin, svo lengi sem þeir skildu spurninguna.
En hvað er til ráða? Hvernig getur þinn unglingur lært að leggja ekki áherslu á að læra aðferðir og reikna mikið magn dæma, heldur rannsaka dæmin? Þú sem foreldri getur spjallað og spurt meira út í stærðfræðina sem unglingurinn þinn er að læra í skólanum. Þegar unglingurinn þinn er búinn að reikna eitt dæmi, þá er gott að rannsaka vel næsta dæmi og velta fyrir sér hvort að það dæmi sé næstum eins og dæmið sem hann var að reikna, ef ekki, hvað er ólíkt?
Ertu með einhverjar spurningar? Ef svo er, hikaðu ekki við að senda mér póst með því að svara þessum pósti. Ef þú ert að lesa spennandi bók, veist um spennandi grein eða hlaðvarp sem tengist stærðfræði eða viðhorfi á einhvern hátt, þá máttu endilega láta mig vita.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
Hjá stærðfræði.is