Eflaust eru einhverjir unglingar sem hafa hugsað um að bæta sig þetta skólaár. Kannski hafa einhverjir 10. bekkingar jafnvel sett sér markmið að bæta sig verulega í stærðfræði.
En hvernig er fyrir ungling í 10. bekk að setja sér markmið að fá B+ í lokaeinkunn í stærðfræði? Það getur verið mjög spennandi og krefjandi markmið, en því verður auðvitað að fylgja einhver raunhæf áætlun.
Hérna eru dæmi um nokkrar mjög óraunhæfar áætlanir til að ná þessu markmiði:
– taka frá nokkrar helgar og ætla að læra rosalega mikið
– ætla að “rífa sig í gang” fyrir öll próf og skilaverkefni
– fá foreldri til að kaupa aukatíma einu sinni í viku til að kenna sér allt sem hann þarf að kunna
Allt sem ég nefni hér að ofan eru svona reddingar, en ef unglingar vilja setja sér stór markmið, þá þurfa þeir að gera eitthvað jafnt og þétt yfir allt skólaárið. En það sem er svo æðislegt við það, er að það þarf alls ekki að taka mikinn tíma eða valda miklu auka álagi.
Besta ráð mitt til að taka sig verulega á í stærðfræði, er að læra jafnt og þétt allt skólaárið. Byrja smátt og svo auka við. Unglingurinn gæti t.d. byrjað á að læra 15 mínútur á dag fyrstu 2-3 vikurnar. Síðan aukið tímann í 25 mínútur og þegar það er orðið að vana aukið tímann í 30 mínútur.
Ef unglingurinn stendur höllum fæti í stærðfræði, þá þarf hann líklega auka aðstoð. Hann getur t.d. komið á námskeið hjá mér þar sem ég fer vel í grunninn sem hann þarf að kunna og svo getur hann fengið auka aðstoð frá mér á meðan námskeiðinu stendur. Hann getur líka fengið einhvern fjölskyldumeðlim eða aðila út í bæ til að aðstoða sig – en það breytir samt ekki þeirri staðreynd að hann þarf sjálfur að vinna jafnt og þétt á milli þess sem hann hittir þann sem mun aðstoða hann. Hann þarf að vita hvað hann veit ekki, vita hvað hann þarf aðstoð með og nýta þá tíma markvisst.
Ef þú finnur að unglingurinn þinn vill bæta sig í stærðfræði, þá er gott að þú gerir honum grein fyrir að þetta sé eitthvað sem þurfi að vinna í jafnt og þétt yfir allt skólaárið. Það þarf alls ekki að vera erfitt eða taka mikinn tíma, en lykillinn er að gera það jafnt og þétt en ekki í skorpum og á síðustu stundu.