fbpx

Minna er betra

Eins og með margt í lífinu, þá er betra að gera eitthvað lítið og oft, heldur en mikið og sjaldan.

Til dæmis er betra að borða eitt epli á dag, í stað þess að borða sjö epli á sunnudögum og betra að hreyfa sig hálftíma á dag í staðin fyrir að hreyfa sig bara einu sinni í viku í þrjá klukkutíma.

minna er betra

Það sama á við um nám, sérstaklega nám eins og stærðfræði. Það er miklu betra að læra hálftíma á dag, í stað þess að ætla að sitja við í nokkra klukkutíma á sunnudegi.

En hvers vegna er betra að dreifa náminu yfir á nokkra daga?

Heilinn okkar er hannaður þannig að þegar við erum að hugsa og læra nýja hluti, þá notar hann “vinnsluminnið” sem er svæðið fremst á heilanum fyrir aftan ennið okkar. En það er ekki fyrr en við förum að sofa sem heilinn vinnur úr upplýsingunum og færir þær yfir í langtíma minnið. Þess vegna verðum við að gefa heilanum tíma til að melta það sem við erum að læra, svo hann nái að vinna úr upplýsingunum jafnt og þétt.

Annað sem gerist þegar við lærum mikið í einu, er að við lendum í þekkingar blekkingu. Okkur finnst við kunna vel efnið sem við erum að fara yfir, en það er bara vegna þess að það er allt í vinnsluminninu okkar.

Bestu verkefnin sem hægt er að leggja fyrir nemendur, eru verkefni sem eru unnin jafnt og þétt. Oftast eru verkefnin í skólunum þannig, en stundum eru nemendur með einhvern vikuskammt sem þeir þurfa að klára og þá er gott að búta efnið niður á vikuna og læra jafnt og þétt – þrátt fyrir að það geti verið freistandi að læra allt strax eða jafnvel fresta því þar til um helgina.


Posted

in

by

Tags: