fbpx

Nýtt upphaf

Flestir grunnskólar landsins byrja í þessari viku. En það er einmitt frábært tækifæri til að tileinka sér nýjan vana eða setja sér ný markmið.

Foreldrar geta t.d. sett sér það markmið að hafa samband við umsjónarkennarann einu sinni í mánuði, til að fá upplýsingar um stöðu síns barns eða unglings. Þegar umsjónarkennarinn veit að hann mun vera í reglulegu sambandi við ákveðna foreldra, þá mun hann frekar fylgjast með og afla sér upplýsinga um viðkomandi nemanda.

Nýtt upphaf

Ég hvet alla foreldra að setja hjá sér í dagatalið að hafa samband reglulega, því það er ekki nógu gagnsætt og skýrt hvernig nemendur standa námslega séð og hvort að það sé eitthvað sem þeir þurfi að fá aðstoð með eða leggja áherslu á. Því fyrr sem gripið er inní, því betra.

Nýtt skólaár er líka frábært tækifæri fyrir nemendur að setja sér ný markmið fyrir skólaárið. Eitt markmiðið gæti verið að læra alltaf 30 mínútur fyrir kvöldmat og ef það er ekkert að læra, þá lesa í bók eða hlusta á bók í 30 mínútur. Þá skiptir mestu máli að þetta sé efni sem sé ekki “létt”, eins og t.d. að hlusta á hlaðvarp, heldur efni þar sem nota þarf ímyndunaraflið og ná að halda söguþræði.

Ég vil einnig benda á að það gæti hentað sumum nemendum í grunnskóla að skrá sig í fjarnám í framhaldsskóla. Það nám er alls ekki bara fyrir nemendur sem eru útskrifaðir úr grunnskóla, heldur fyrir alla, allt frá 12 ára til 90 ára. Ég mæli sérstaklega með fjarnámi hjá FÁ, þar sem ég hef fylgst með nemendum taka fjarnám í þeim skóla í mjög fjölbreyttum og ólíkum fögum og kennslan þar hefur verið alveg til fyrirmyndar. Það væri t.d. hægt að taka áfanga í stærðfræði, íslensku, ensku eða jafnvel hönnun tölvuleikja. En það þarf þá að vera fag sem unglingurinn þinn hefur sérstakan áhuga á að taka í fjarnámi.

Sem sagt, nýta það að það sé nýtt upphaf að byrja í næstu viku og því tilvalið að gera einhverjar breytingar sem hafa jákvæð áhrif.

Ertu með einhverjar spurningar? Ef svo er, hikaðu ekki við að hafa samband.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: