fbpx

Hvað einkennir góðan stærðfræðikennara

Ef þú hugsar til baka um þann kennara sem þér fannst bestur eða var í uppáhaldi hjá þér, þá var það líklega einhver kennari sem þér líkaði vel við og kenndi efnið á þann hátt sem hentaði þér vel.

En þó svo að einum nemanda finnist einhver kennari mjög góður, þá getur verið að öðrum nemanda finnist þessi sami kennari alls ekki góður. Oftast er það vegna þess að nemandanum líkar hreinlega ekki við kennarann eða kennarinn nær ekki að skýra efnið út með þeim hætti sem hentar þessum nemanda.

Hvað einkennir góðan kennara

Að mínu mati þá er margt sem einkennir góðan kennara: hann þarf að trúa á nemendur, hafa brennandi áhuga á efninu sem hann er að kenna og ná að smita þann áhuga til nemenda.

En þegar kemur að fagi eins og stærðfræði, þá bætist ýmislegt við, sem mér finnst einkenna góðan kennara, þar sem stærðfræði er fag sem er ólíkt öðrum fögum eins og t.d. líffræði, sögu og íslensku.

Góður stærðfræðikennari þarf:

  • að finna ólíkar leiðir til að kenna sama efnið, því þessi eina leið sem er kennd í stærðfræðibókinni hentar allls ekki öllum.
  • leyfa nemendum að prófa sig áfram, ekki sýna of mikið hvernig hann myndi gera, heldur leggja sig fram að skilja hvernig nemandinn er að hugsa dæmið.
  • fagna öllum villum og leggja áherslu á að það sé frábært tækifæri til að læra eitthvað nýtt.
  • spyrja nemandann góðra spurninga, sem fá nemandann til að hugsa og velta fyrir sér verkefnunum.
  • hrósa nemendum fyrir vinnusemi og þrautseigju – og æfa nemendur markvisst í því.
  • hjálpa nemendum að tileinka sér vaxandi hugarfar (e. growth mindset) t.d. með því að breyta því hvernig nemendur tala og kenna þeim hvernig heilinn þeirra virkar.
  • kenna nemendum að nálgast stærðfræði með rannsóknar hugarfari og að tileinka sér stærðfræði viðhorf (e. math mindset) þegar þeir setjast niður að læra stærðfræði.
  • kenna nemendum að glósa í stærðfræði, spyrja góðra spurninga og námstækni sem nýtist sérstaklega vel í stærðfræði.

Það er mjög margt af því sem er í listanum hérna fyrir ofan, sem þú sem foreldri getur nýtt þér, ef unglingurinn þinn er heima að læra í stærðfræði. Það sem vegur kannski mest fyrir foreldra er að líta á stærðfræði sem rannsóknarvinnu, fagna villum og þjálfa þrautseigjuna.

Stærðfræði er svo ólík öðrum fögum í grunnskóla. Það skiptir miklu máli að nemendur geri sér grein fyrir að það þarf allt aðra einbeitingu til að læra stærðfræði og það skiptir miklu máli að nemendur æfi sig í að reyna lengi við sama dæmi án þess að gefast strax upp.

Þú sem foreldri getur auðveldlega aðstoðað unglinginn þinn við að þjálfa þrautseigjuna þegar hann sest niður til að læra stærðfræði. En það er gert með því að taka símann hans og setja hann í eldhússkúffuna (eða á einhvern stað sem hann truflar ekki og er ekki nálægt) og stilla svo eggjaklukku eða eitthvað sambærilegt á 10 mínútur og þjálfa hann í að reyna við dæmið í þann tíma án þess að gefast ekki upp. Ef það tekst (þ.e.a.s. hann reynir við sama dæmið í þennan tíma) – þá er það frábært tækifæri fyrir þig til að hrósa honum fyrir þessa vinnusemi. Það skiptir engu máli hvort honum tókst að leysa verkefnið eða dæmið á þessum tíma, það sem skiptir mestu máli er að þjálfa sig í að reyna við dæmið í ákveðinn tíma án þess að gefast upp.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: