fbpx

Markmið fyrir hvern stærðfræðitíma

Hvað er eiginlega markmiðið með hverjum stærðfræðitíma? Vita nemendur hvað markmiðið er og fara þeir inn í tímann með það hugarfar að ná markmiðinu?

Fyrir mér, þá er markmið með hverjum stærðfræðitíma að læra eitthvað nýtt. Sama markmið ætti að vera þegar nemendur setjast niður til að læra stærðfræði heima hjá sér.

markmið stærðfræðitími

En hvað flokkast eiginlega undir það að læra eitthvað nýtt?

Margir halda að það að ná tökum á einhverju nýju efni eða ná að fatta eitthvað mjög flókið, sé merki um það að maður hafi lært eitthvað nýtt, en skilgreiningin á því að læra eitthvað nýtt er mun víðari.

Ferlið sem fer af stað í heilanum, þegar við lærum eitthvað nýtt, gengur út á að búa til nýjar tengingar.

Rannsóknir sýna að þegar við fáum villur, skiljum ekkert eða upplifum mikla togstreitu, þá er heilinn að búa til nýjar tengingar.

Þegar nemendur eru í þessari stöðu, þá er mikilvægt að þjálfa sig í að gefast ekki upp, því að þetta eru einmitt aðstæður þar sem nemendur eru virkilega að læra eitthvað nýtt.

Hvenær eru nemendur ekki að læra neitt nýtt?

Þegar nemendur mæta í tíma (eða setjast niður til að læra heima) og reikna 20 dæmi sem öll eru rétt – þá eru þeir líklega ekki að læra mikið nýtt. Þeir eru sannarlega að styrkja tengingar í heilanum sem voru til fyrir, en það eru engar nýjar tengingar í heilanum að myndast.

Samt er þetta svona draumastaða nemenda og margir nemendur halda að þeim gangi svo vel og þeir séu að læra svo mikið nýtt, því þeir fá engar villur.

Hvernig getur þú hjálpað þínum unglingi?

Það er mikilvægt að þú miðlir þessu til þíns unglings. Þegar hann situr heima og á í erfiðleikum með stærðfræði – láttu hann þá vita að þetta sé einmitt merki um að hann sé að læra eitthvað nýtt, því heilinn er að búa til nýjar tengingar! Þegar villur, erfiðleikar og mikil togstreita er til staðar, þá er það tækifæri til að sitja aðeins lengur við því heilinn er svo upptekinn við að mynda þessar nýju tengingar.

Markmiðið er ekki endilega að ná góðum tökum á einhverju nýju efni sem hann er að læra, heldur er markmiðið að hann sé að læra eitthvað nýtt þ.e.a.s. fá villur, ströggla smá og þurfa að hafa fyrir því að halda áfram að vinna í efninu.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: