fbpx

Skapandi klettabrúnablekkingin

Eins og efni þessa pósts gefur til kynna, þá langar mig að tala um hugtakið skapandi klettabrúnablekkingin (e. the creative cliff illusion).

Í stuttu máli gengur hún út á það að rannsóknir hafa sýnt að við upplifum oft að bestu hugmyndirnar okkar komi strax. Ef við eigum t.d. að leysa eitthvað skapandi og krefjandi verkefni, þá séu fyrstu hugmyndirnar sem koma upp í hugann þær bestu og einu.

skapandi klettabrúnablekkingin

En það er alls ekki svo. Fyrstu hugmyndirnar sem koma upp í hugann eru oft hugmyndir sem allir aðrir fá líka, þessar týpísku hugmyndir. Þegar við erum á þessum stað, þá getum við ekki ímyndað okkur aðrar hugmyndir, eins og við séum bara komin fram á “skapandi klettabrúnina”.

En ef við dveljum lengur við, eftir að við teljum okkur vera komin með allar hugmyndir á borðið, þá koma yfirleitt miklu fleiri hugmyndir og jafnvel bestu hugmyndirnar – hugmyndir sem ekki allir aðrir sjá strax.

Þegar ég var að lesa mig til um þessa skapandi klettabrúnablekkingu, þá tengdi ég þetta strax við upplifanir í stærðfræði. Stærðfræði er mjög skapandi fag, jafnvel þótt það sé ekki tilfinning allra. Stærðfræði gengur út á að skilja verkefnið til hlítar og finna síðan leiðir til að leysa verkefnið.

Oft setjast nemendur niður til að leysa krefjandi og spennandi verkefni, þeir reyna kannski tvisvar sinnum að koma með hugmyndir að lausn, en gefast síðan upp ef þeir fá ekki rétt svar. En það er einmitt þá sem er nauðsynlegt að gefa verkefninu meiri tíma.

Ég er ekki að tala um marga klukkutíma, bara stilla á 10-15 mínútur og reyna aðeins meira við verkefnið. Það er nefnilega einmitt þá sem við lærum mest, þegar við lendum í togstreitu við heilann og þurfum virkilega að nýta einbeitingu og sköpunargáfuna til að sjá hvort við getum nálgast verkefnið með öðrum hætti. Þetta er líka frábær leið til að þjálfa vinnusemi og þrautseigju.

Það er mitt mat að núna, meira en áður, þá þurfum við að þjálfa unglingana okkar í að einbeita sér og hugsa um krefjandi og skapandi verkefni. Það er svo mikið af áreiti í umhverfinu sem gerir það að verkum að þessi eiginleiki að geta einbeitt sér að krefjandi verkefni í langan tíma verður alltaf meiri áskorun.

Á námskeiðunum hjá mér þá legg ég áherslu á að nemendur þjálfi sig í þrautseigju, það er ekki eins erfitt og margir halda, en það er einmitt lykillinn að árangri í stærðfræði.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: