Ég heyrði áhugavert viðtal á Bylgjunni í vikunni sem er að líða, þar sem verið var að ræða sumarfrí í skólum á Íslandi. Í kjölfarið fór ég að grúska í rannsóknum sem tengjast þessu efni.
Sumarfrí í skólum eru mislöng eftir löndum. En í Bandaríkjunum og á Íslandi eru sumarfríin mjög löng miðað við önnur lönd sem við berum okkur oft saman við. Sumarfrí íslenskra grunnskólanema eru um 10 vikur og sumarfrí framhaldsskólanema eru um 14 vikur (og jafnvel lengri ef nemendur eru í próflausum áföngum). Sumarfrí í skólum Bandaríkjunum er svipað og á Íslandi eða um 8 – 12 vikur.
Ef við berum okkur saman við Danmörku, þá er sumarfrí þar um 6 vikur. Ég er ekki búin að reikna það út sjálf, en fróð manneskja sagði mér að ef kennsluvikur í framhaldsskóla í Danmörku væru lagðar saman, þá jafngilti það fjögurra ára námi í framhaldsskóla á Íslandi – þar sem sumarfríin á Íslandi væru svo löng. Það má því alveg setja spurningarmerki við að stytta framhaldsskólann í þrjú ár, til að vera í samræmi við önnur lönd sem við berum okkur saman við, en horfa ekki til þess að skólaárið í þeim löndum er mun lengra.
En segjum sem svo að það sé hægt að pakka fjögurra ára námsefni í framhaldsskóla í þrjú ár, þá er annað sem þarf að hafa í huga, en það er námstap (á ensku kallast það summer learning loss). Bandaríkjamenn hafa gert margar rannsóknir sem snúa að löngum sumarfríum og niðurstaðan úr öllum er að of löng sumarfrí hafa áhrif á heilann. Það sem nemendur hafa lært “fjarast” smátt og smátt út eftir því sem sumarfríin eru lengri.
Áhrif langra sumarfría á heilann
Í einni rannsókn frá Bandaríkjunum kemur fram að nemendur gleyma allt að 40% af námsefninu yfir sumartímann. Í þeim löndum sem hafa svona löng sumarfrí skiptir því miklu máli að reyna að halda heilanum virkum yfir sumarið, sérstaklega í lestri og stærðfræði, þar sem það eru fög sem byggja á ákveðnum grunni. Þeir nemendur sem hafa gott bakland eru líklegri til þess að ná að viðhalda þekkingunni að einhverju leyti yfir sumarið, á meðan nemendur sem tilheyra efnaminni fjölskyldum fer aftur.
En þetta er í samræmi við það sem Jo Boaler, stærðfræðiprófessor í Stanford hefur oft talað um og tekið rannsóknir á leigubílstjórum í London sem dæmi. En til þess að geta orðið leigubílstjóri í London þurfa einstaklingar að taka próf sem tekur tvö til fjögur ár að búa sig undir. En þeir þurfa að þekkja 25.000 götunöfn og 20.000 kennileiti utan að svo eitthvað sé nefnt. Fylgst var með heilastarfsemi þeirra sem voru að undirbúa sig undir þetta próf og starfsemi ákveðins hluta heilans óx verulega í gegnum námið og meðan þeir störfuðu sem leigubílstjórar en minnkaði hratt um leið og þeir hættu að starfa sem leigubílstjórar.
Áhrif langra sumarfría á undirbúning til háskólanáms
Stytting framhaldsskólans hefur haft neikvæð áhrif á Háskólanám. Skv. Gylfa Zoëga, prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, benda niðurstöður rannsóknar til að stytting framhaldsskólanáms, í þrjú ár í stað fjögurra, leiði til þess að háskólanemar á fyrsta ári ljúki færri einingum, fái lægri meðaleinkunn í námskeiðum sem þau ljúka og séu líklegri til að hætta í námi.
Áhrif langra sumarfría á andlega líðan
Það að hafa ekkert að gera yfir sumarið getur ekki haft góð áhrif á andlegan líðan nemenda sem hafa lítið sem ekkert að aðhafast. Þegar ég var unglingur fengu flestir vinnu allt sumarið. Í dag eru grunnskólanemendur heppnir ef þeir fá nokkrar vikur í unglingavinnu en svo er ekkert meira fyrir þá að gera en að hanga og kannski leika sér í símanum eða tölvunni. Unglingar í framhaldsskóla sem eru undir 18 ára eiga einnig oft erfitt með að fá sumarvinnu, svo það er stundum ekkert fyrir þá að gera allt sumarið. Ég vil þó nefna að sumir unglingar eru í einhverjum íþróttum þar sem þessi löngu sumarfrí koma sér vel og eru jafnvel nauðsynleg.
Niðurstaða mín með þessum skrifum er sú að við þurfum kannski að endurskoða skólakerfið í heild sinni. Eru þessi löngu sumarfrí í grunn- og framhaldsskólum að hafa neikvæð áhrif á námsárangur nemenda? Þurfum við að rannsaka það og bregðast við ef svo er? Eru þessi löngu frí kannski í lagi, en þá þurfum við að lengja framhaldsskólann aftur í fjögur ár? Eða eigum við kannski að lengja BS námið í Háskólanum úr þremur í fjögur ár, eins og í Bandaríkjunum?