Hefur þú lent í því að unglingurinn þinn sé að fara í próf, en frestar að byrja að læra fyrir prófið?
Í þessu tilviki eru tvö ólík sjónarhorn. Þú hugsar kannski “af hverju ertu ekki byrjaður að læra fyrir prófið?” Á meðan unglingurinn þinn er að hugsa “nenni ekki að stressa mig yfir þessu strax, það er enn langt í prófið”.
Þitt sjónarmið er ekki endilega réttara. Unglingur sem sest niður og byrjar að læra mjög tímanlega, án þess að sjá tilgang með því, mun ekki hafa rétta viðhorfið til að skilja og muna efnið sem hann er að lesa. Sumir unglingar geta munað allt sem þeir lesa daginn fyrir próf, því þeir vita að þetta er eini og síðasti sénsinn til að læra fyrir prófið. Þá fer einbeitingin á fullt og upplýsingarnar eiga auðveldara með að festast í minni.
En hvað geta kennarar gert til þess að aðstoða nemendur að gera ekki allt á síðustu stundu?
Það er hægt að gera með því að búta verkefnin niður. T.d. ef skila á endanlegri ritgerð eftir tvo mánuði, þá er hægt að hafa fjóra til fimm skilafresti fram að því sem tryggja það að nemandinn sé að vinna í ritgerðinni og fái reglulega endurgjöf á framvinduna. Fyrstu skilin gætu verið að vera búinn að finna 2-3 heimildir og síðustu skilin væru þá eingöngu til að lesa ritgerðina yfir í síðasta skipti fyrir loka skil og kannski fínpússa forsíðu og heimildaskrá.
Í stærðfræði er þetta yfirleitt gert með því að hafa minni próf eða verkefni, en af því að ég hef mikið verið að kenna á framhaldsskólastigi í kennslustofu, þá finnst mér vanta verulega upp á að nemendur kunni að læra fyrir próf. Það væri t.d. hægt að biðja nemendur að búa til svindlmiða, skrifa niður dæmi sem þeir ætla að skoða sérstaklega vel fyrir prófið og þannig fá nemendur til að undirbúa sig fyrr undir lokapróf í stærðfræði. Ég hef áður skrifað um það hvernig nemendur geta undirbúið sig fyrir próf í stærðfræði.
En hvað getur þú gert til þess að hvetja unglinginn þinn til að byrja fyrr, ef kennslan eða eðli verkefnanna er þannig að unglingurinn þinn upplifir enga pressu?
Rannsóknir sýna að ef þú getur tengt það að byrja við “nýtt upphaf” þá getur það virkað vel. Við þekkjum vel að vera tilbúin að byrja af fullum krafti á nýju ári, en það er hægt að tengja þetta við t.d. nýja viku, t.d. að byrja af fullum krafti á mánudaginn.
Einnig þurfum við líklega að aðstoða unglinginn okkar við að búta verkefnið niður. Ef það á að vinna þetta verkefni í einhverjum skrefum, hvaða skref eru það? Síðan væri hægt að búa til plan í samræmi við það.
Mesta áskorunin hjá unglingum er yfirleitt að taka frá tíma til að læra. Það er ekkert hægt að nota “ég ætla að vinna í þessu þegar ég hef tíma”. Hann þarf að ákveða hvaða tími kemur til greina og skuldbinda sig að vinna á þeim tíma.
Þegar að tímanum kemur, þá kemur líklega upp frestunarárátta, en eins og ég hef skrifað um áður þá kemur þessi fresturnarhugsun upp við tilhugsunina að fara að vinna verkefnið. Um leið og unglingurinn þinn hunsar þessa frestunartilfinningu og byrjar, þá ætti þessi tilfinning að fara (svo lengi sem síminn er kominn í eldhússkúffuna) og hann getur fengið frið til að byrja.
Unglingar eru eins ólíkir og þeir eru margir. Þeir sem eiga nokkur börn þekkja eflaust að meðan það þarf að hafa mikið fyrir því að annar læri, getur hinn lært án þess það þurfi að skipta sér af því.
Hefur þú þurft að peppa þinn ungling áfram til að byrja tímanlega með verkefni eða læra fyrir próf? Hvaða ráðum beittir þú og hvernig virkaði það? Þú mátt endilega láta mig vita með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
Hjá stærðfræði.is