fbpx

Hvern langar ekki að læra stærðfræði

Ég hef haldið fyrirlestra í skólum um stærðfræði og ég byrja alltaf fyrirlestrana á því að segja:

Rannsóknir staðfesta og sanna að allir geta lært stærðfræði og allir geta orðið góðir í stærðfræði….en hvers vegna eru þá ekki allir góðir í stærðfræði?

Unglingar vita alveg svarið við því, það er:

Af því að þeim langar ekki að vera góðir í stærðfræði!

Það er einmitt málið. Allir geta lært stærðfræði, EN nemendum þarf að langa til þess og þeir þurfa að vera tilbúnir að vinna og sýna þolinmæði og þrautseigju.

En hvers vegna langar nemendur ekki að vera góðir í stærðfræði? Þegar ég spyr nemendur út í það, þá koma alls konar svör og mörg svörin benda til þess að nemendum langar ekki til að vera góðir í stærðfræði – af því að þeir hafa einhverjar ranghugmyndir um stærðfræði eða innst inni halda þeir að þeir geti ekki orðið góðir í stærðfræði.

Hverjum langar ekki að læra stærðfræði


Hér eru nokkur dæmi um ástæður þess að nemendum langar ekki að læra stærðfræði

„Mér finnst stærðfræði erfið“
Stærðfræði er ekki fag eins og t.d. saga, þar sem þú lærir t.d. nafn á höfuðborg og þarft að muna það. Stærðfræði er fag sem krefst því að heilinn erfiði og stærðfræði snýst ekki um að læra efni utan að, heldur virkilega skilja efnið. Ef nemendur halda að þeir eigi að geta lært stærðfræði án þess að reyna á heilann og nálgast stærðfræði með það hugarfar – þá er ekki skrítið að þeir gefist um þegar þeir finna að hún er erfið!

„Mér finnst stærðfræði leiðinleg“
Ég veit að nemendum finnst skemmtilegt að leysa krefjandi verkefni. En það sem þarf að breyta til þess að stærðfræði fá ekki stimpil fyrir að vera leiðinleg er einkum tvennt að mínu mati. Við þurfum að hætta að tímamæla nemendur á prófum í stærðfræði og við þurfum að hætta með allan utanbókarlærdóm í stærðfræði eins og t.d. að læra margföldunartöfluna utan að.

„Næ ekki að einbeita mér í stærðfræði“

Nemendur hafa að mínu mati minna úthald núna en þegar ég kenndi fyrst (árið 2007). Það getur því reynst áskorun fyrir marga að setjast niður og læra stærðfræði. En við getum þjálfað heilann okkar eins og við þjálfun vöðva. Það verður þess vegna auðveldara að einbeita sér, eftir því sem við æfum það oftar.

„Ég er svo lengi að fatta“

Margir af okkar bestu stærðfræðingum hafa sagt frá því að þeir héldu í grunnskóla að þeir væru heimskir af því að þeir voru svo lengi að fatta nýtt efni í stærðfræði. En ástæðan var bara sú að þeir þurftu að skilja efnið með öðrum hætti og jafnvel öðrum leiðum en kennslubókin sýndi. Það leiddi oft til þess að þeir gerðu uppgötvanir, sem þeir sem voru svo fljótir að fatta sáu ekki. Ef nemendur halda að þeir eigi að vera fljótir að fatta nýtt efni og nálgast nýtt efnið með það viðhorf, þá er ekki skrítið að þeir gefist fljótt upp ef þeir eru ekki fljótir að fatta.

„Foreldrar mínir voru ekki góðir í stærðfræði“

Rannsóknir hafa sýnt að ef foreldrar sem eiga börn sem eiga í erfiðleikum með stærðfræði og ef þeir hafa einnig átt í erfiðleikum með stærðfræði og deila þeirri reynslu með sínum börnum – þá eru miklar líkur á að barnið sætti sig við að vera eins og foreldrið, hætti að hafa trú á sér og fari að ganga verr í stærðfræði. Það er því ekki gott ef foreldrar sem hafa slæma reynslu af stærðfræði séu að deila þeirri upplifun með sínu barni.

„Ég get ekki orðið góður í stærðfræði“

Margir nemendur vita að allir geta orðið góðir í stærðfræði, en halda samt að þeir séu undantekning. Það skiptir öllu máli að nemendur trúi því að þeir geti orðið góðir í stærðfræði (ef þeim langar til þess og þeir eru tilbúnir að vinna fyrir því). Því getur hjálpað ef nemendur hafa kennara sem trúa á þá og láta þá vita af því.


En í lokin langar mig samt að segja að nemendum má alveg „ekki langa“ til að læra stærðfræði. En það er erfitt að vita til þess að margir hafa þessa skoðun út af einhverjum ranghugmyndum eða lítilli trú á sjálfum sér.

Ertu með einhverjar spurningar? Ef svo er, hikaðu ekki við að hafa samband.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: