fbpx

Hvenær á ég eftir að nota þetta í framtíðinni?

Ég held ég geti fullyrt að enginn stærðfræðikennari hefur komist hjá því að fá spurninguna „hvenær á ég eftir að nota þetta í framtíðinni?“ þegar kemur að stærðfræði.

Fyrst þegar ég byrjaði að kenna, þá var ég mikið að reyna að sanna fyrir nemendum að þeir ættu kannski eftir að nota þetta í framtíðinni.

Hvenær þarf ég að nota þetta?
Hvenær á ég eftir að þurfa að nota þetta í framtíðinni?!

En síðan fór ég að hætta að nenna því og sagði bara „líklega aldrei, en þetta er frábær líkamsrækt fyrir heilann“.

Í dag þegar ég er spurð, þá er ég enn á þeirri skoðun að meirihluti nemenda eru kannski ekki að fara að leysa jöfnuhneppi eða nýta sér reglu Pýþagórasar – en það sem nemendur eru að gera í stærðfræði mun samt sem áður nýtast þeim í framtíðinni.

Mér finnst gott að líkja stærðfræðinámi við aðrar greinar þar sem sambærilegar spurningar (hvenær á ég eftir að nota þetta í framtíðinni) heyrast aldrei. Tökum sem dæmi nemanda sem á að skrifa heimildaritgerð í íslensku um burstabæi.

Þessi nemandi á ekki eftir að segja við íslenskukennarann sinn „hvenær á ég eftir að nota þetta í framtíðinni“. Þessi nemandi mun samt sem áður líklega ekki þurfa að nýta þekkingu sína um burstabæi mikið í framtíðinni – en það er líka ekki það sem verkefnið gengur út á.

Þegar nemandinn er að skrifa þessa ritgerð þá er hann að æfa sig í að skrifa heimildaritgerð, vinna eftir ákveðnum aðferðum, með ákveðna uppsetningu, læra að leita að heimildum og meta gæði heimilda, búa til heimildaskrá o.m.fl.

Þegar nemendur eru í blaki í íþróttum, þá er það ekki til þess að nemendur geti farið að æfa og keppa í blaki. Þetta er hluti af því að nota fjölbreyttar aðferðir til að styrkja líkamann og heilann.

Þegar nemendur eru að læra um ákveðið efni í stærðfræði, þá eru þeir ekki að gera það til þess að geta leyst eins dæmi í framtíðinni, heldur eru þeir að æfa sig í að beita ákveðinni rökhugsun, finna leiðir til að leysa verkefnið og æfa sig í þrautseigju og vinnusemi.

Það eru örugglega einhverjir foreldrar sem hafa líka fengið að heyra „hvenær á ég eftir að nota þetta í framtíðinni?“ þegar kemur að stærðfræði. Ef sú spurning kemur upp, þá hvet ég þig til þess að líkja stærðfræðinámi við annað nám, þannig að unglingurinn þinn geri sér grein fyrir því að hann sé að læra að nálgast og leysa verkefni almennt – sem mun klárlega nýtast honum í framtíðinni.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: