fbpx

Eftir ákvörðun eru aðrar spurningar

Frumstæðasti hluti heilans er svokallaður eðluheili (e. reptilian brain). Eitt af hans hlutverkum er að forða okkur frá hættu, en hann hefur því miður endurskilgreint hvað er hættulegt. Hér áður fyrr var það hættan við að verða étinn af ljóni, en núna getur hættan verið að setjast niður og reikna stærðfræði. Eðluheilinn er því stanslaust að forða okkur frá ýmsum “hættum” og sannfæra okkur um að fara að gera eitthvað miklu skemmtilegra.

Við getum breytt þessu með því að taka ákvörðun. Sálfræðingurinn Peter Gollwitzer hefur notað orðatiltækið “að fara yfir Rubicon ánna”.

Ákvörðun aðrar spurningar
Eftir að við tökum ákvörðun, spyrjum við okkur annarra spurninga

Rubicon er áin sem Júlíus Sesar fór yfir 49 f. Kr. í andstæðu við skipanir. Það að fara yfir þessa á var ákvörðun sem ekki var hægt að taka til baka eftir að hann var kominn yfir ánna.

Ef við höldum áfram með myndlíkingu Peters, þá erum við oft við árbakkann og þá eru hugsanir okkar: Get ég farið yfir? Ætti ég að fara yfir? Hvers vegna ætti ég ekki að fara yfir? Sem sagt, áður en við tökum ákvörðun um að fara yfir ánna, þá höfum við val og getum talað okkur ofan af því að fara yfir ánna.

En um leið og við tökum ákvörðun um að fara yfir ánna, þá er ekki aftur snúið og við erum búin að skuldbinda okkur að taka því sem er hinum megin við ánna. Hugsanir sem þá koma upp í hugann eru þá allt aðrar eins og: Hvernig fer ég að þessu? Hvað þarf ég að gera núna? Hvað þarf ég að gera öðruvísi ef það virkar ekki?

Það að taka ákvörðun og skuldbinda sig til að fylgja henni eftir, léttir verulega á röddinni í heilanum sem vill forða okkur frá öllum hættum.

Tökum til dæmis einhvern sem stendur höllum fæti í stærðfræði, en langar að ná góðum tökum á stærðfræði. Hann sest niður til að læra, en gefst fljótt upp, því það er eitthvað annað betra sem nær athygli hans.

En síðan er annar nemandi sem stendur höllum fæti í stærðfræði. En hann er staðráðinn í því að ná virkilega góðum tökum á stærðfræði og búinn að ákveða að taka frá tíma daglega til að sinna stærðfræðinni. Þessi nemandi er kominn yfir ánna. Þegar eitthvað reynir að fanga athygli hans, þá nær það því ekki, því hann er staðráðinn og búinn að taka ákvörðun um að ná góðum tökum á stærðfræði.

Þegar ég ræði þetta við nemendur á námskeiðum hjá mér, þá nota ég orðin að langa eða ætla. Langar þig að ná góðum tökum á stærðfræði eða ætlar þú að ná góðum tökum á stærðfræði?

Þegar nemendur segja “mig langar að ná góðum tökum á stærðfræði”. Þá eru þeir að gefa í skyn að það væri voða næs að vera góður í stærðfræði, en það er bara alltaf eitthvað óvænt og spennandi í gangi. Það er staðreynd að það er ekkert mál að finna afsökun fyrir því að hafa ekki tíma eða geta ekki lært stærðfræði.

Þeir nemendur sem taka ákvörðun um að þeir ætli að ná góðum tökum á stærðfræði, þeir taka frá tíma til að vinna í stærðfræði og láta það ganga fyrir. Auðvitað eru aðstæður þeirra og áreiti nákvæmlega sambærileg áreitum hjá þeim nemendum sem “langar”, en þeir nota það ekki sem afsökun til að gefast upp og hætta við að ætla að ná góðum tökum á stærðfræði.

Sem sagt, það er svo miklu auðveldara fyrir nemendur að setjast niður til að læra stærðfræði, EFTIR að þeir eru búnir að taka ákvörðun um að ná góðum tökum á stærðfræði. Ef nemandi sem stendur höllum fæti í stærðfræði er ekki búinn að taka þessa ákvörðun, þá verður hann endalaust að semja við innri röddina í hausnum sem segir honum að fara að gera eitthvað annað.

Ef unglingurinn þinn stendur höllum fæti í stærðfræði, láttu hann þá vita að um leið og hann tekur ákvörðun um að ætla að ná góðum tökum á stærðfræði og stendur fast á þeirri skoðun, þá mun heilinn hans síður reyna að fá hann ofan af því að setjast niður til að læra.

Bestu kveðjur,
Gyða hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: