fbpx

Hvað finnst þér um stress?

Hvaða kemur upp í hugann þegar þú hugsar um orðið stress? Hvað finnst þér um stress?
Þú mátt endilega spá í þessu örlitla stund áður en þú lest áfram.

.
.

stress
Hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir orðið stress?

Þegar ég hugsa um stress, þá kemur upp í hugann prófkvíði sem margir nemendur glíma við, en einnig hvernig stress getur haft jákvæð áhrif á nemendur í prófum.

Ég hef verið með nemendur sem hafa kunnað efnið upp á 10, en gjörsamlega lokast í prófum og ekki náð að gera neitt. En ég hef líka verið með nemendur sem kunna efnið upp á 7 en fá einhvern ofurkraft, einbeitingu og hugmyndaflug í prófum og ná með undraverðum hætti að fá 10.

Dr. Alia Crum, sem er prófessor við Stanford háskólann í Bandaríkjunum, gerði rannsókn sem snýr einmitt að viðhorfi okkar til stress.

Einn hópur horfði á myndband um stress þar sem allir neikvæðu þættir þess voru dregnir fram, eins og neikvæð áhrif á vinnslu upplýsinga og minni og neikvæð áhrif á ónæmiskerfið.
Allt voru þetta upplýsingar sem eru sannar.

Hinn hópurinn horfði á myndband um stress, þar sem allir jákvæðu þættir þess voru dregnir fram, eins og betri einbeiting, betra minni og jákvæð áhrif á ónæmiskerfið (til skamms tíma).
Allt voru þetta líka upplýsingar sem eru sannar.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að það sem þú lærir og trúir um stress, hefur gríðarlega mikil áhrif á það hvernig þú bregst við stressi. Þeir sem lærðu að stress væri neikvætt upplifðu neikvæðar afleiðingar af stressi og þeir sem lærðu að stress væri jákvætt upplifðu jákvæðar afleiðingar af stressi. Þessar afleiðingar voru bæði lífeðlisfræðilegar og sálfræðilegar.

Bara til að ítreka þá fengu báðir hópar upplýsingar sem voru réttar, þessi rannsókn hafði því ekkert með placebo áhrif að gera heldur áhrif viðhorfs.

Hvernig getum við nýtt okkur þessar upplýsingar?

1. Það er nauðsynlegt að við kennum unglingnum okkar að við erum með ákveðið viðhorf eða hugarfar, sem er túlkun okkar á því sem um ræðir. T.d. hvað kemur upp í hugann þegar unglingurinn þinn heyrir “stærðfræði”.

2. Í framhaldinu er gott fyrir unglinginn að skoða hvort að þetta viðhorf sé hvetjandi eða hamlandi fyrir hann.

3. Ef hann finnur að þetta viðhorf skemmir fyrir, þá hefur hann tækifæri á að breyta viðhorfinu t.d. með því að líta á það frá öðrum hliðum eða finna sannanir fyrir því að hans túlkun gæti verið önnur o.s.frv.

Þetta snýst alls ekki um að hafa rétt viðhorf eða rangt viðhorf, heldur að unglingurinn hugsi og og sé meðvitaður um hvort að þetta viðhorf sem hann hafi sé að hjálpa eða skemma fyrir honum. Ef hann finnur að þetta er að skemma fyrir, þá getur hann unnið í því að breyta því. Kannski ekki alveg eins auðvelt og það hljómar og þó! Hvað ef viðhorf hans er, að hann getið auðveldlega breytt viðhorfi sínu…

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: