Gætu límmiðar virkað hvetjandi á nemendur í 10. bekk? Það var einmitt spurning sem ég spurði mig þegar ég var að kenna unglingum í 10. bekk árið 2007.

Ég hafði verið að reka hugbúnaðarfyrirtæki sem var að fara í gegnum eigendaskipti og ég var byrjuð að undirbúa flutning til Bandaríkjanna þegar ég sá auglýsta tímabundna stöðu stærðfræðikennara á unglingastigi.
Ég hafði ekki prófað að kenna eftir að ég útskrifaðist úr Kennaraháskólanum og þessi tímasetning var alveg fullkomin fyrir mig. Frábært tækifæri til að breyta aðeins til og prófa að kenna stærðfræði eins og ég hafði menntað mig til.
Skólinn hafði byrjað í ágúst, en ég kom inn í lok september og því var allt skólastarf komið á fullt. Þessi skóli var með “einstaklingsmiðað nám” sem var frekar nýtt á þessum tíma. Mér fannst hugmyndafræðin svo sem fín en þegar ég hitti nemendurna mína þá kom í ljós að stór hluti þeirra var bara að dunda sér í sínu efni á sínum hraða og nánast allur árgangurinn var langt á eftir í efni 10. bekkjar miðað við “venjulega” námsframvindu.
Þetta var eitthvað sem ég sætti mig alls ekki við. Hvaða unglingur brunar áfram í efninu ef hann má taka efnið algjörlega á sínum hraða? Svarið er, mjög fáir.
Ég ákvað að ég yrði að gera eitthvað í þessu. Ég þyrfti að finna leiðir til að fá nemendur til að vinna markvissara og leggja aðeins meira á sig til að komast á réttan stað í stærðfræði.
Ég byrjaði að taka stöðuna á hverjum einasta nemanda (nema þeim sem voru skráðir í sérkennslu), á hvaða blaðsíðu er hann og á hvaða dæmi. Síðan fór ég heim og varði helginni í að búa til plan (einstaklingsmiðað!) fyrir hvern einasta nemanda. Planið var sem sagt að útlista hvað nemandinn þyrfti að fara yfir mikið efni á hverjum degi til að komast á réttan stað í stærðfræði fyrir ákveðinn tíma.
Á mánudeginum á eftir kynnti ég planið: Hver nemandi var með ákveðið markmið af fjölda dæma eða efni sem hann þyrfti að ná að fara yfir daglega. Ég myndi taka stöðuna á hverjum einasta nemanda í hverjum stærðfræðitíma og þeir nemendur sem næðu markmiðum sínum fengu límmiða. Síðan myndi ég aðlaga og búa til ný markmið fyrir þá sem voru ekki að ná markmiðum sínum.
ALLIR nemendur voru til í þetta.
Eins og ég sagði þá var þetta átak hugsað fyrir nemendur sem voru í tímum hjá mér, en ekki nemendur sem voru alltaf í sérkennslu þegar það var stærðfræðitími. En þá kom til mín nemandi sem var í sérkennslu í stærðfræði og spurði hvort hún mætti líka vera með, fá markmið fyrir hvern dag og ef hún næði markmiðinu þá fengi hún límmiða. Hún var sem sagt í sérkennslu og því töluvert verr stödd en aðrir nemendur í bekknum. Ég sagði henni að þetta yrði mjög erfitt og hún þyrfti að leggja mikið á sig – en auðvitað mætti hún líka taka þátt í þessu átaki.
Ég ætla ekki að hafa þennan póst mjög langan, en stutta sagan er að allir nemendur komust á réttan stað í stærðfræði og voru svakalega spenntir að fá límmiða fyrir að ná markmiðum sínum. Þetta á líka við nemandann sem var í sérkennslunni, hún reif sig í gang og fór að leggja mikið á sig og auðvitað uppskar hún hærri einkunnir í öllum prófum, aukið sjálfstraust og fór að finnast stærðfræði skemmtileg.
Til hvers er ég að segja frá þessu? Það er af því að unglingar eru ansi lúmskir, þeir eru spenntir fyrir áskorunum og það þarf oft ekki mikið til, til að hvetja þá áfram. OK, snjallsímar voru ekki komnir til sögunnar árið 2007 svo kannski var verðgildi límmiða aðeins hærra, en samt!
Hvað getur þú gert fyrir þinn ungling? Það er þetta klassíska, trúðu á hann og leyfðu honum líka að setja sér spennandi og krefjandi markmið með einhverja smá gulrót fyrir að ná því. Ég veit að þetta getur verið ansi snúið þegar foreldrar eiga í hlut, en það er um að gera að nota ímyndunaraflið og sjá hvort hægt sé að finna leiðir til að hvetja unglinginn þinn áfram.
Hefur þú kannski reynt að búa til einhverja gulrót fyrir þinn ungling? Hvernig hljóðaði samningurinn og hvernig fór það?
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is