fbpx

Hvað finnst þér um stærðfræði- seinni hluti

Af hverju finnst okkur stærðfræði skemmtileg eða leiðinleg eða bara hlutlaus?

Við vitum það ekki fyrir víst hvað það er sem hefur áhrif á viðhorf okkar til stærðfræði, enda er það mismunandi eftir einstaklingum.

Í síðasta pósti talaði ég um ytri þætti sem geta haft áhrif á hvað þínum unglingi finnst um stærðfræði. Í dag ætla ég að fjalla um nokkra innri þætti sem geta haft áhrif á það hvernig við upplifum stærðfræði.

Það eru bæði innri og ytri þættir sem hafa áhrif á það hvað okkur finnst um stærðfræði.

Hugarfar (e. mindset)

Ef unglingurinn þinn trúir því innst inni að hann geti lært stærðfræði, þá eru ansi miklar líkur á því að hann geti lært stærðfræði. Þetta er það sem kallað er vaxandi hugarfar, þegar við trúum því að það sé ekkert sem við getum ekki lært – það getur tekið tíma og kostað mikla þrautseigju, en við vitum að við getum það.

Andstæðan við vaxandi hugarfar er hamlandi hugarfar. Það er þegar við trúum því innst inni að við getum ekki lært stærðfræði. Með þetta hugarfar er ansi erfitt og jafnvel ómögulegt að ná góðum tökum á stærðfræði.

Sem betur fer er hægt að æfa sig í að tileinka sér vaxandi hugarfar, enda eru flestir með vaxandi hugarfar á ákveðnum sviðum (t.d. stærðfræði) en hamlandi hugarfar þegar kemur að öðrum greinum (t.d. tungumálum).

Bros og líkamsstaða

Það eitt að brosa sendir skilaboð til heilans að við séum að hugsa jákvætt og þá á sama tíma er auðveldara fyrir okkur að fá góðar hugmyndir um hvernig hægt sé að leysa krefjandi verkefni. En líkamsstaða getur líka haft áhrif, ef við stöndum eins og Superman, þá gefur sú líkamsstaða okkur aukuð sjálfstraust.

Það getur verið erfitt að muna að vera jákvæður og hugsa eitthvað jákvætt til að segja, en við getum öll brosað þegar við reiknum stærðfræði og það mun strax hjálpa okkur mikið!

Orðanotkun

Það getur haft mjög mikil áhrif hvaða orð við notum þegar við erum að tala við okkur sjálf. Þegar við notum hamlandi orð eins og “ég get ekki” eða “ég get þetta aldrei”, þá mun heilinn ekki aðstoða okkur við að læra efni. Ef við getum vanið okkur á að segja í staðin “ég get þetta bráðum”, þá erum við að senda þau skilaboð að við vitum innst inni að við getum lært þetta, þó svo að við kunnum þetta ekki alveg í dag.

Ef það væri eitthvað eitt sem ég myndi mæla með að þú kenndir þínu barni eða ungling, þá er það að æfa sig að hætta að nota orðin “ég get ekki” og nota “ég get þetta bráðum” í staðin. Oft er þetta bara ávani sem hefur neikvæð áhrif og því mjög gott að skipta þessu út!

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: